Mac´n cheese með spínati og beikoni

Þar sem ég gerði fiskböku á enska vísu um daginn ákvað ég að fara til annars lands og gera Makkórónur og ost með spínati og beikoni. Mér finnst þessi réttur mjög hentugur þar sem það er hægt að nota hann bæði til að laga til í ísskápnum þegar maður heldur að maður á ekki neitt og fela grænmeti fyrir börnum með því að skera grænmetið mjög smátt en hafa góðu bitana eins og beikon í stærra lagi. Í þessari uppskrift nota ég pepperone, sveppi, beikon og spínat en hægt er að nota reykta skinku eða pylsur í staðinn fyrir beikonið og/eða bæta við grillaðri papriku og Zuccini. Eins setti ég inn uppskrift af Lasagna með ostasósu um daginn og þar sem ég geri alltaf of mikið af ostasósunni þá er ég búin að venja mig á að setja alltaf afganginn í frysti til að nota seinna, getur líka notað þá sósu ef þú átt hana.

Það sem þú þarft fyrir 4 er:

2 bolla makkórónur

10 böggla af frosnu spínati

sveppi

beikon

pepperone

25 gr smjörlíki

2-3 msk hveiti

mjólk

hálfan mexíkóost (eða þann sem þér þykir bestur)

poka rifin ost

2 hvítlauksrif

rjómaost

Smjörklípa

Þú byrjar á því að afþýða spínatið með því að leggja þá á tusku ofan í sigti, þetta getur tekið svolítin tíma. Fyrst setur þú upp vatn fyrir makkórónurnar, á meðan suðan er að koma upp þá skerð þú niður sveppina, beikonið og pepperoníið og steikir þar til það er orðið stökkt. Þú sýður makkórónurnar þannig að það sé um það bil 2 mín eftir af suðutímanum þar sem að restin gerist inní ofninum. Núna snýr þú þér að sósunni. Fyrst bræðir þú smjörlíkið þar til það hættir að snarka og setur svo hveitið út í og býrð til nokkurs konar deig. Þetta þynnir þú út með mjólk þar til það er orðið þokkalega þunnt, hugsaðu þykka súpu. Nú setur þú mexíkóostinn rifin ofaní ásamt hvítlauknum, mátt skera hann í teninga en þetta gerist hraðar með rifnum ost. Næst setur þú steikta gummsið útí sósuna með öllum safanum og vindir vatnið úr spínatinu með tuskunni þannig: spínatið er í miðjunni og tekur endana saman og snýrð í blöðru þar til allur vökvi er farin úr. Nú er gott að skipta frá sósupísk yfir í sleif þar sem spínatið flækist í písknum og erfitt er að þrífa hann. Nú er sósann nærrum því tilbúin, þú tekur pottinn af hellunni og setur tvær lúkur af rifnum osti útí og hrærir varlega þannig að það eru fallegir taumar þegar þú teygir úr sósunni. Ef þér finnst sósan bragðlaus þá er gott að setja smá klípu af krafti ef þú vilt, getur verið grænmetis eða nautakraftur.

Nú tekur þú makkórónurnar og skolar þær undir heitu vatni og lætur leka af þeim. Næst setur þú makkórónurnar á pönnu ásamt smjörklípu, þú þarft ekki hita undir þar sem hitinn frá makkarónunum bræðir smjörið. Þessu er velt vel saman og svo er sósunni ásamt öllu gumsinu hellt yfir makkórónurnar og velt varlega saman. Þessu er hellt í eldfast mót, rifnum osti dreift yfir og sett í ofn á 200° grill með blæstri. Þetta þarf mjög lítin tíma þar sem allt er fulleldað og osturinn þarf bara að verða gullinn. Mér finnst best að nota grunnt eldfast mót þannig að allir fái sem mest af osti :D

Verði ykkur að góðu


Kjúklingur í Satay sósu með hrísgrjónum og grænmeti

Ég er mikill aðdáandi Exotic varanna sem seldar eru í Bónus vegna þess að þetta er tilbúið á pönnuna og það er ekki svona gervibragð af þessu eins og mörgum tilbúnum vörum. Ég notaði gulrætur, sveppi og baby maís en það er vel hægt að nota bara blandað frosið grænmeti. Þetta er uppskrift fyrir 2-3 manneskjur en það er ekkert mál að minnka hana fyrir 1.

Það sem þú þarft er:

2 kjúklingabringur

3 stórar gulrætur

nokkra sveppi

1 dós Baby maís

1 flösku Satay sósu frá Exotica

salt og pipar

matarolíu

Þú byrjar á því að skera kjúlingabringurnar niður í gúllas og steikja á pönnu með olíu. Því næst skerð þú grænmetið niður og setur á pönnuna með kjúklingnum og saltar með pipar og salti. Þegar þú ert búin að steikja grænmetið í um það bil 2-3 mínútur þá setur þú sósuna út á og setur hálfa flösku af vatni á móti. Mér finnst best að hafa sósuna svolítið þunna en þú þarft ekki að þynna hana. Þetta lætur þú malla í um það bil 3-5 mín.

Þetta er svo borið fram með hrísgrjónum og/eða brauði. Verði ykkur að góðu.


Fiskbaka með spínati og kartöflustöppu

Ég var orðin leið á sama venjulega matnum þannig að ég fór að fletta upp í matreiðslubókum Jamie Oliver til að fá innblástur að nýjum hugmyndum af kvöldmat. Ég rakst á mjög svo enska uppskrift af fiskböku sem hljómaði skemmtilega en ég setti að sjálfsögðu mitt mark á þetta og breytti henni aðeins. Ég notaði venjulega ýsu í þetta en þegar ég var búin að smakka afraksturinn þá er ég alveg viss um að reyktur fiskur sé enn betri í þetta. Þetta er líka æðislegur réttur til þess að fela grænmeti í fyrir þá sem eru búnir að ákveða að grænmeti sé vont ;)

Það sem þú þarft er:

1 stórt ýsu/þorskflak eða reyktan fisk

1 laukur

3 gulrætur

1 Sæta kartöflu (má sleppa)

íslenskt smjör

3 kúfaðar msk rjómaost

1/2 dl mjólk

2-3 kartöflur

3-4 ræmur beikon

ferskt eða frosið spínat

2 hvítlauksgeira

salt

pipar

Lamb islandia krydd

Rifin ost

Það fyrsta sem ég geri er að skræla kartöflurnar og sjóða, gott er að skera þær í tvennt þá þarftu styttri suðutíma. Á meðan kartöflurnar eru að sjóða skerðu beikonið í litla bita og steikir þar til það er stökkt og leggur til hliðar. Næst smjörsteikir þú smáttskorin laukinn, gulræturnar, sætu kartöflurnar og hvítlaukinn í um það bil 5 mín undir lágum hita. Síðan setur þú rjómaostinn og mjólkina útá og bræðir saman og kryddar síðan með salti, pipar og Lamb islandia. Ég nota djúp eldfast mót svo að hægt er að stafla þessu almennilega. Fyrst setur þú ferska spínatið í botninn, mundu að meira er betra þar sem það rýrnar mjög mikið við eldun, og raðar fiskbitunum yfir. Næst kryddar þú fiskinn með salti og pipar og hellir sósunni yfir.

Nú snýrðu þér að kartöflustöppunni. Þú setur soðnar kartöflurnar saman við smjörklípu, mjókurdreitil og steikta beikoninu og kryddar svo með salti, pipar og pínu sykri. Þú smyrð kartöflustöppunni yfir fiskinn og stráir svo rifnum osti yfir þetta allt saman. Þetta er svo bakað í ofni í um það bil 25 mín.

Það sem þú þarft að hafa í huga þegar þú gerir þennan rétt:

Ef þú ákveður að nota reyktan fisk farðu þá varlega í saltið og mundu að roðfletta fiskinn áður en þú setur hann í fatið.

Ef þú notar frosið spínat þá þarftu að leggja það í sigti með klút undir og lætur renna af því á meðan þú undirbýrð réttinn. Þegar kemur að því að setja spínatið í fatið þá notar þú klútinn eins og poka og vindur spínatið vel vegna þess að það kemur nægur vökvi af fiskinum.

Verði ykkur að góðu :D


Doritos Lasagna með ostasósu

Þetta lasagna hefur alltaf slegið í gegn hjá mér.

Það sem þú þarft er:

500-600 gr hakk

1 niðursuðudós pastasósa frá Hunt´s eða 1 Burritos kryddbréf og pínu vatn

1 Lauk

lasagnaplötur

mjólk

smjörlíki

hveiti

pepperoneost eða Mexíkóost

Grænt eða rautt pestó (má sleppa)

rifin ost

Doritos eða hvaða maísflögur sem þú vilt

Mér finnst lang þæginlegast að leggja lasagnaplöturnar í heitt vatn á meðan ég geri ostasósuna og kjötsósuna þannig þarf lasagnað ekki eins langan tíma í ofninum. Vertu bara viss um að þrífa eldhúsvaskinn vel áður. Þú byrjar á því að steikja hakkið og laukinn saman á pönnu og kryddar með þínu uppáhaldskryddi. Næst hellir þú úr niðursuðudósinni yfir þetta allt saman og lætur malla í 5 mín.

Ef þú vilt frekar nota Burritoskrydd heldur en Hunt´s pastasósu þá steikir þú hakkið ásamt lauknum, setur burritoskryddið útá með pínu vatni svo þetta verði að kjötsósu.

Þegar þú gerir ostasósuna þá byrjaru á því að bræða um það bil 25 gr smjörlíki og blandar saman við 2-3 msk hveiti. Þú hrærir þessu saman og býrð til nokkurs konar deig. Svo þynnir þú þetta út með mjólk og hrærir vel. Áður en suðan kemur aftur upp setur þú niðurskorin pepperoneostinn eða mexíkóostinn útí ásamt pestóinu. þetta hrærir þú vel þar til suðan kemur upp. Því næst tekur þú pottinn af hellunni og setur 1 stóra lúku af rifnum osti út í og hrærir varlega saman þannig að sósan verði nánast teygjanleg. Nú er ostasósan tilbúin.

Fyrst setur þú mjög lítið af kjötsósunni í botninn svo að pastað festist ekki. Svo setur þú kjötsósu og pasta til skiptis þar til 1 umferð er eftir, þú endar á pasta. síðan Setur þú ostasósuna yfir og mylur Doritosið yfir. Síðast setur þú restina af rifna ostinum og setur inní ofn á 200° með blæstri í um það bil 20 mín eða þar til osturinn er orðin gullinbrúnn.

Þetta er svo borið fram með brauði og/eða salati.


Gufusoðin fiskur með grænmeti og smurosti

Þetta er æðislegur fiskur og ég hef hann oft á sumrinn vegna þess að hann er svo ferskur og góður. Þú getur skipt piparsmurostinum og sítrónunni út fyrir einhvern annan ost, ég hef prófað smurost með sólþurrkuðum tómötum og það er æðislegt. Eins eru leiðbeiningar hvernig eigi að gera gufupokann í myndum í iconunum hér að neðan.

Það sem þú þarft:

um það bil 1 flak þorsk/2 flök ýsu

1/2 dollu piparsmurost

Hálfa sítrónu

blandað grænmeti fryst eða ferskt

1 Lauk

krydd (ég nota kjúklingagrillkryddið frá Santa María en þú getur notað þitt eigið uppáhalds)

Álpappír

Fyrst setur þú 2x lengdina af álpappír yfir ofnplötu og skerð laukinn í sneiðar og dreifir yfir það pláss sem þú ætlar að nota. Skildu samt eftir gott pláss í hliðunum svo þú getir lokað pokanum almennilega, sirka 5-6 cm. Þetta kryddar fiskinn og kemur í veg fyrir að hann festist við álpappírinn. Næst setur þú fiskbitana yfir laukinn, svo krydd, smurost, grænmeti og síðast sítrónusneiðar.

Næst leggur þú hinn helminginn af álpappírnum yfir matarhrúguna og brýtur alla veganna 3x upp á álpappírinn á báðum hliðum eða þar til þú ert kominn alveg upp að fisknum. Mundu að brjóta upp en ekki niður.

Síðast brýtur þú upp á endann og setur inn í ofninn á 200° með blæstri í um það bil 30 mín. Þetta er svo borið fram með hrísgrjónum eða soðnum kartöflum. Það er rosalega gott að fara með pokann á ofnplötunni á eldhúsborðið og rífa svo pokann upp varlega á meðan allir sitja við borðið. Þá kemur þessi rosalega ilmsprengja sem lætur slefkirtlana vinna yfirvinnu :D

Það er hægt að gera þetta með kjúklingabringum líka en þá mæli ég með því að þú kljúfir bringurnar langsum og setur yfir laukinn og skvettir pínu hvítvíni/mysu/vatni í pokann áður en þú lokar honum.

Það er lítið mál að gera tvo poka í einu ef það er mikið af fólki í mat en mundu bara að hafa gott bil á milli ofnplatnanna þegar þú ert að elda þetta.

Verði ykkur að góðu!!


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Eplasalat sem hægt er að nota á tvo vegu

Þetta er eitt af því fyrsta sem pabbi minn kenndi mér í eldhúsinu, en hann ber ábyrgð á ást minni á eldamennsku. Í upprunalegu uppskriftinni notaði pabbi majónes og sýrðan rjóma í dressinguna en ég skipti því út fyrir grískt jógúrt/skyr til þess að geta notað þetta á tvennan hátt og það er þar að auki hollara :)

Það sem þú þarft er:

Dós af Grísku jógúrti/óhrært skyr

Litla niðursuðudós af ananas í bitum

1 grænt epli

sykur

Þú byrjar á því að gera dressinguna með því að hræra saman jógúrtið, safan af ananasinum og sykur, síðan setur þú ananasbitana út í. Síðan flysjar þú eplið og hreinsar kjarnann úr, mátt hafa flusið á ef þú vilt, og brytjar niður út á dressinguna. Þetta hrærir þú saman og berð fram með grilluðu svínakjöti, mér finnst þetta best með léttreyktu svínakjöti.

Þetta salat er rosalega gott og það er allt í lagi að gera of mikið vegna þess að hægt er að skera niður banana daginn eftir og setja út og borða í morgunmat :D


Chillifiskur með hrísgrjónum

Í þessum rétti skiptir ekki máli hvort þú notar rasp eða hveiti en ef þú vilt frekar nota hveiti þá mæli ég með því að þú dýfir fiskbitanum tvisvar í bæði hveitið og eggin til skiptis. Þessi aðferð gefur þér þykkari áferð og bitarnir verða aðeins meira "crispy".

Það sem þú þarft er:

Fisk (má vera þorskur eða ýsa)

rasp/hveiti

egg

salt og pipar

Sweet chilli sauce

hrísgrjón

matarolíu

Þetta er í raun asísk útgáfa af steiktum fisk. En fyrir þá sem hafa litla reynslu í eldhúsinu og eru kannski að steikja fisk í fyrsta skiptið þá ætla ég að fara yfir þetta skref fyrir skref. Það fyrsta sem þú gerir er að setja upp vatn með saltklípu fyrir hrísgrjónin vegna þess að fiskurinn tekur styttri tíma. Á meðan þú ert að hita upp olíuna á pönnunni þá skerð þú flakið í meðalstóra bita, pískar eggin í djúpum disk og hrærir saman raspi/hveiti, salti og pipar saman á öðrum disk. Næst tekur þú þykkustu bitana fyrst og dýfir í eggið og svo raspið, ef þú ert að nota hveiti þá dýfiru í eggið svo hveitið og endurtekur þetta svo áður en fiskurinn fer á pönnuna. Þegar fiskurinn er tilbúin þá tekur þú pönnuna af hellunni en setur um leið chillisósuna yfir fiskinn. Ekki hreyfa neitt við fiskinum né sósunni þetta á bara að sitja á pönnuni þar til það kólnar. Með þessu ertu að gera sósuna að meiri chillikaramellu.

Þegar hrísgrjónin eru tilbúin þá berðu þetta á borð, ef maður er með stórt matarboð eða stórafjölskyldu og aðgang að stóru eldhúsi þá er svolítið gaman að gera vorrúllur með ásamt kjúklinganúðlum og/eða nautakjöt í ostrusósu. Þá er þetta orðið svolítið eins og take-away nema mikið ódýrari ;)

verði ykkur að góðu


Pylsupasta með hvítlauksbrauði

Þennan rétt dýrkar litli bróðir minn, hvaða krakka finnst pylsur vondar hihihi

Það sem þú þarft er:

Spagettí

1 dós Hunt´s Pizzasósa, niðursuðudósirnar eru ódýrastar og nóg fyrir heila fjölskyldu og gott að geyma afganginn í krukku.

1 pylsupakka, mér finnst best að nota Toscana pylsur frá Goða en vínarpylsur er fínar líka.

1 Lauk

Ólívuolía

Pipar og Lamb islandia

Þú byrjar á því að sjóða spagettíið í vatni með smá klípu af salti. Á meðan spagettíið sýður steikir þú laukinn og pyslurnar í potti og hellir sósunni yfir. Ég reikna sirka 1 og hálfa pylsu á mann og svo  kryddar þú með pipar og Lamb islandia. Þessu leyfir þú að sjóða í um það bil 5 mín.

Þetta er síðan borið fram með hvítlauksbrauði.

Mér finnst voða þæginlegt að nota Hunt´s sósurnar og það er ódýrara en þegar metnaðurinn er mikill þá geri ég mína eigin sósu.

Það sem þú þarft í sósuna er:

1 dós gróftsaxaðir tómatar frá Hunt´s

2-3 hvítlauksrif, getur notað 1-2 teskeiðar af hvítlauksmauki

1 stóran lauk

Kjötkraft

Pipar

Lamb Islandia

Tómatpúrra

 Þú byrjar á því að setja tómatana með öllum vökvanum í pott og leyfir suðunni að koma upp á meðan þú skerð niður laukinn. Næst setur þú hvítlaukinn og Lamb islandia kryddið út á og leyfir þessu að sjóða niður, tekur um það bil 5-10 mín. Næst setur þú restinni af kryddinu og tómatpúrruna út í og hrærir vel. Svo lækkar þú undir sósunni og leyfir að sjóða í um það bil 20-25 mín í viðbót. Það þarf að vaka yfir þessu, hræra reglulega upp í þessu og smakka til ef þú skyldir þurfa meira krydd. Tómat- og hvítlausbragðið á að vera ríkjandi en með smá kjötbragði. Þú getur líka notað parmesanost í lokin til að krydda meira, má vera þurrkaður í dollu en gott að nota alvöru líka.

Gangi ykkur vel :D


Kjúklingakebab og steikt kryddhrísgrjón með grænmeti

Þetta er rosalega gott á grillið og auðvelt er að útbúa, eins og svo margt sem ég hef sett hérna inn.

Það sem þú þarft er :

2-3 kjúklingabringur

1 rauða papriku

1 box kirsuberjatómata

1 poka skyndihrísgrjón

Gular baunir

Frosið blandað grænmeti, mátt nota ferkst  og þá mæli ég með Zuccini og Brokkoli

1 bréf Fajitaskrydd frá Santa María

Sojasósa

Hunang

Gott er að byrja að undirbúa um það bil klst áður en þú ætlar að grilla grillpinnana. fyrst blandar þú sojasósu og hunangi saman, ég reyni að hafa þetta jöfn skipti, helming og helming. Þetta er marineringin þín. Þú hlutar bringurnar niður í frekar stóra bita svo að þeir haldist á pinnanum og setur í marineringu í klst. þegar kjúklingurinn er búin að marinerast þá setur þú bitana upp á pinna með kirsuberjatómötum og rauðri papriku á milli, ekki raða þessu of þétt því þá tekur þetta lengri tíma að grillast. Einnig er gott að snúa pinnunum oft á meðan þú grillar svo að grænmetið brenni ekki.

Kryddhrísgrjón

fyrir einn poka af hrísgrjónum er nóg að setja hálft bréf af fajitas kryddi. Þú þarft að setja kryddið í vatnið fyrst og sjóða það í um það bil 5 mín áður en þú setur hrísgrjónin útí. Taktu hrísgrjónin úr vatninu þegar 3 mín eru eftir af suðutímanum. Á meðan þetta sýður þá steikiru grænmetið, ekki gulubaunirnar. þegar allt er tilbúið þá setur þú hrísgrjónin og gulu baunirnar út á pönnuna með grænmetinu og steikir í nokkrar mín.

Kjúklingakebabið og hrísgrjónin er gott abð bera fram með góðri kaldri sósu, mér finnst Ora sósan með lauk og kryddjurtum æðisleg með fiski og kjúklingi.

Verði ykkur að góðu


Kjötbollusúpa

Ég ákvað í tilefni af því að veðurspáin hérna fyrir norðan er alveg hrikalega köld, að skella inn heitri súpu sem hentar í kuldanum í útilegunni í sumar.

Það sem þú þarft er:

Kjötfars

Kartöflur

Gulrætur

Rófur

Lauk

Súpujurtir

Grófmalaðan svartan pipar

Nautakraft

Vatn

Þessi uppskrift er ekki í hlutföllum vegna þess að það er bara smekksmál hvað sumir vilja mikið af hverju og þetta er spurningin um að smakka sig áfram.

Þú byrjar á því að skera allt grænmetið niður í meðalstóra bita, mér finnst best að skera þetta í munnbita. Setur þetta allt í pott með vatni og gerir litlar kjötbollur úr kjötfarsinu með teskeið. Síðast setur þú súpujurtirnar, piparinn og kraftinn í og sýður í um það bil 10 mín, fer eftir því í hversu stóra bita þú skerð grænmetið.

Verði ykkur að góðu að góða skemmtun í útilegum sumarsins :D


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband