Kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum, papriku og feta osti

Þessi réttur er æðislegur og auðvelt að búa til. Upprunalegu uppskriftina smakkaði ég fyrst hjá vinkonu minni Önnu Lilju en ég setti mitt merki á hana og breytti henni aðeins ;)

Það sem þú þarft fyrir 2-3 manneskjur er:

2 kjúklingabringur

1 dós smurost með sólþurrkuðum tómötum

2 matskeiðar mjólk/rjóma

1 tsk grænt pestó

Feta ost

1 rauða papriku

Nokkra Sólþurrkaða tómata (má sleppa)

nokkrar ferskjur (má sleppa)

3 matskeiðar hreinan rjómaost

uppáhalds kjúklingakryddið þitt, mér finnst kjúklingakryddið frá Santa Maria alltaf best

 Þú byrjar á því að skera bringurnar niður í munnstóra bita og steikja upp úr olíunni af fetaostinum og kryddar. Síðan setur þú paprikuna á og rétt lætur hana svitna, hún má ekki verða lin, ásamt tómötunum. Ég geri sósuna á sömu pönnu með öllu gummsinu með því að setja smurostinn, rjómaostinn og vökvan saman og bræða saman. í lokin setur þú pestóið á  ásamt ferskjunum, á þessum tímapunkti er ég búin að taka pönnuna af hellunni og þarf ekkert að hita meira upp.

Þetta er síðan sett á disk ásamt hrísgrjónum og Feta osti dreift yfir og borði fram með hvítlauksbrauði.

Ég setti mynd inn að neðan, bara smella á iconið


Nautakjöt með ostrusósu og hrísgrjónum

Þetta er ekki beint uppskrift, frekar hugmynd að kvöldmat þar sem hráefnið er allt tilbúið fyrir þig. Þetta þýðir bara góður matur sem allir geta gert, meira að segja hamfarakokkarnir :)

þú þarft ekki að nota nautakjöt í þetta, þú getur notað kjúkling, svínakjöt, lambakjöt eða hrefnukjöt.

það sem þú þarft er:

pakki af nautagúllasi, 300-400 gr

1-2 laukur

1 dós Baby Corn

2 flösku ostrusósu

olía

salt og pipar

Þú byrjar á því að skera gúllasið í sneiðar, mér finnst persónulega gúllas alltaf koma í svo stórum bitum, þetta er réttur þar sem allt er í munnbitastærðum. Þú þarft að hita pönnuna vel með olíu á þar sem að kjötið á að snöggsteikjast, rétt brúnast, og svo krydda með salti og mikið af pipar. Næst er að skera maisinn og laukinn gróflega og svo beint á pönnuna en þú mátt bara rétt hita það upp svo það verði ekki ofeldað. Næst setur þú alla ostrusósuna út á pönnuna og fyllir aðra flöskuna af vatni þannig að hægt sé að þrífa hana en um leið þynna út sósuna. Leyfðu þessu að sjóða í 2-3 mín og taka svo af hellunni.

Þetta er svo borið fram með hrísgrjónum. Ég setti inn mynd af réttinum fullkláruðum, bara smella á iconið hér að neðan :)

verði ykkur að góðu


Ferskt salsa með öllu og á allt

Mitt nýja uppáhald núna er ferskt salsa þar sem það er einfalt að gera og passar með öllu. Hægt er að setja þetta á hamborgara, borða í stað salats með grillkjötinu eða bara með gamla góða steikta fiskinum.

Það eina sem þú þarft er:

Ferksa tómata, getur notað venjulega eða kirsuberja. What ever tickles your fancy ;)

rauðlauk

ólívuolíu, mátt nota matarolíu

salt og pipar

hot sauce /tabasco sósu (mátt sleppa)

græna papriku og/eða klettasalat (má sleppa)

Þú saxar allt mjög smátt saman í skál, reyndu að setja sem mest af vökvanum frá tómötunum í skálina með. Mælingin sem ég nota á rauðlaukinn og tómatana er ca. 1 tómatur á móti 1/2 rauðlauk, fer eftir því hvað þú vilt hafa þetta sterkt og hvað þú ert hrifin af lauk ;). Næst setur þú nokkra dropa af olíu og smá salt og pipar og hrærir vel. Nú er blandan mild eins og það er kallað, ef þú vilt hafa hana medium eða strong þá setur þú hot sauce í eftir smekk.


Sumarlegt kartöflusalat með sætum kartöflum

Þessi uppskrift er samansafn margra annarra uppskrifta sem ég setti saman og prófaði um daginn. Þetta salat er ekki með neinni/lítilli fitu þar sem ég nota grískt jógúrt í stað majónes eða sýrð rjóma. Dressingin er mjög fersk og með margvíslegu kryddi sem hægt er að finna í flestum kryddskápum. Þar sem ég er dash-kokkur þá er málið að smakka sig áfram þar sem ég mældi ekki ofan í skálina þegar ég gerði þetta. Ég mun setja inn einhverjar mælingar en ekki vera hrædd um að laga skammtana til eftir þínum eigin smekk og smakka MIKIÐ til, jafnvel bæta við kryddi sem þér finnst gott. Þegar þú gerir kartöflusalat er talað um að það sé gott að gera það um það bil 24 tímum áður en þú ætlar að borða það en mér finnst í lagi að gera það 2 tímum fyrir.

Það sem þú þarft er:

3 venjulegar kartöflur

Sæta kartöflu, um það bil helmingin af venjulegu kartöflunum (t.d. 1 venjuleg á móti 1/2 sætri)

1 Dollu grískt jógúrt, þarft mögulega ekki alla dolluna.

Bréf púrrulauksúpu, þarft mögulega ekki allt bréfið.

1 hvítlauksgeira / 1/2 tsk hvítlauksmauk

1-2 tsk Dijon sinnep, ef þú ert hrifnari af sæta bragðinu geturu notað sætt sinnep.

salt og pipar

sítrónusafa

rauða papriku

búnt graslauk

vatn

Þú byrjar á því að skræla og skera niður kartöflurnar í bita á við hálfan munnbita, setur í saltað vatn og sýður í um það bil 2-3 mín. Ég vil persónulega hafa kartöflurnar pínu stökkar þannig að ég sýð þær frekar stutt og svo er betra að hræra dressinguna saman við. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar þá tekur þú soðvatnið af og setur ískalt vatn yfir og lætur þær liggja á meðan þú gerir dressinguna. Mundu að kartöflurnar eru sjóðandi heitar þannig að það getur verið að þú þurfir að skipta um vatn nokkrum sinnum áður en þú nærð því ísköldu.

Þú byrjar á því að setja gríska jógúrtið í skál ásamt pínu vatni og hrærir saman. Gott er að miða við magnið af kartöflum og hvort þú vilt mikið af dressingu eða lítið, mér finnst gott að hafa mikið þar sem maður má það :). Þú miðar vatnið við hversu þunna dressingu þú vilt hafa. Allt mjög persónubundið þar sem við erum jú öll með misjafnan smekk.

Næst setur þú restina af hráefninu með jógúrtinu nema paprikuna. Ef þú ert hrifin af lauk eins og ég þá er gott að setja svolítið mikið af púrrulaukssúpu en mundu að smakka þetta til og að dressingin verður aðeins sterkari þegar hún er búin að standa þar sem púrrulauksduftið leysist upp með tímanum og samlagast jógúrtinu betur. Þegar þú setur graslaukin í mæli ég með því að þú notar skæri og klippir þetta beint ofan í skálina og raspar hvítlaukin ofan í, getur líka notað 1/2 tsk af hvítlauksmauki sem hægt er að kaupa í krukkum.

Þegar dressingin er tilbúin þá skerð þú rauðu paprikuna niður í litla bita og setur allt saman í eina skál, líka kartöflurnar og dressinguna. Ef þú vilt vera fancy þá geturu skreytt með steinselju eða fínsöxuðu klettasalati áður en þú setur þetta á borðið.

Verði ykkur að góðu :D


Eggjanúðlur með kjöti/kjúklingi og grænmeti

Þetta er mjög einföld uppskrift og mikið hægt að leika sér með hana hvað varðar hráefni og magn. þessi uppskrift er fyrir 4-5 manneskjur

það sem þú þarft:

400 gr Eggjanúðlur

3 kjúklingabringur eða um það bil 350 gr nautagúllas/svínagúllas

eins mikið af frosnu eða fersku grænmeti og þú vilt

1 heilan lauk

1 dós af Baby Maís

4 Egg

matarolíu

salt og pipar

chicken and steak krydd (kvarnirnar sem eru seldar í bónus) eða uppáhaldskryddið þitt

chilliolía (mátt sleppa)

Fyrst steikir þú kjúklinginn/kjötið á pönnu með smá matarolíu og kryddar með pipar og kjúklingarkyddinu. Næst setur þú grænmetið á pönnuna, ef þú notar frosið grænmeti í bland við ferskt settu þá ferska grænmetið fyrst og þegar það er farið að svitna aðeins seturu frosna grænmetið útá. í lokin seturu smá saltklípu yfir allt saman og setur í skálina sem þú ætlar að nota

nú er gumsið tilbúið, á meðan þetta er að gerast er gott að sjóða núðlurnar. Þú sýður núðlurnar í hreinu vatni, ekkert salt, í 1-2 mín. Þegar þær eru tilbúnar er gott að klippa aðeins í gegnum þær með skærum og setja í sigti, gott að skola þær aðeins. því næst setur þú núðlurnar aðeins á pönnuna með smá matarolíu, passaðu að setja ekki of mikið þá verða þær of blautar og ekki nógu góðar. Fyrir þá sem finnst chilli er gott að setja blöndu af chilliolíu og matarolíu.

Þessu blandar þú svo öllu saman í skál, hrærir eggin á pönnu og setur varlega saman við.

Hægt er að bera þetta fram með vorrúllum eða öðrum austurlenskum pönnurétti. Ég kaupi stundum vorrúllurnar frá Daloon og sting inní ofn á meðan ég geri núðlurnar. Það er mynd af réttinum hér að neðan.

Ef ykkur líst vel á að hafa chilliolíu, ekkert vera að kaupa hana vegna þess að það er svo einfalt að gera hana sjálf og hún er góð á allt.

Chilliolía

Það eina sem þú þarft er:

matarolía/ólívuolía

þurrkaður chilli með fræjum (Ég keypti mitt í Megastore og það er æði)

þetta setur þú svo í olíuflösku með góðum  stút ef þú átt ekkert svoleiðis er hægt að nota fallega krukku. Olían þarf að sitja á borðinu í um það bil 3 sólahringa þar til þú getur farið að nota hana og gott er að hrista upp í henni öðru hverju.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband