Bloggfærslur mánaðarins, október 2011

Mexíkósk gúllassúpa

Ég ákvað að prófa að gera styttri leið að gúllassúpu. Þetta er mjög matarmikil súpa sem gott er að hita upp daginn eftir eða frysta og eiga seinna.

Það sem þú þarft er:

1 bréf mexíkó súpa frá Toro

9 dl. vatn

1 dl rjómi

1 dl sýrður rjómi

1 teningur nautakraftur

350 gr nautagúllas

2-3 gulrætur

3-4 kartöflur

2 msk tómatpúrra

hot sauce (má sleppa)

salt og pipar

1 laukur

Mér finnst gúllas alltaf of stórt skorið í pakkningunum þannig að ég byrja á því að skera það í minni bita og saxa niður laukinn. Þetta steiki ég í potti og krydda með salti og pipar, gott er að setja eitthvað gott kjötkrydd líka. Þegar kjötið er orðið brúnað þá seturu vel af vatni í pottinn og sýður í um það bil 25 mín. Næst seturu 9 l. af vatni ásamt súpuduftinu, rjómanum, sýrða rjómanum, tómatpúrrunni, kjötkraftinum og slatta af hotsauce í pott og hræra vel saman. Síðan flysjar þú og skerð niður gulrætur og kartöflur og setur í pottinn. Þegar gúllasið er búið að sjóða þá veiðiru það uppúr ásamt sem mestu af lauknum og setur í pottinn með súpunni og kveikir undir. Hægt er að sjóða súpuna á meðan gúllasið er að sjóða ef þú ert í tímaþröng. Kjötið er tilbúið og það þarf í raun bara að henda því í súpuna. Þegar suðan er komin upp á súpunni þá lætur þú þetta malla í 10 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar soðnar mundu að hræra með stuttu millibili þar sem það er rjómi í þessu.

Þetta er kannski ekki matur sem maður hendir saman á hálftíma en er alveg biðarinnar virði. En ef þú ert eins og ég mundu að blása vel á súpuna áður en þú smakkar hana.

Verði ykkur að góðu


Tortillapizza

Ég fann þessa pizzuaðferð á youtube.com og er hún alveg tilvalin fyrir litlu krílin að gera sjálf sína eigin pizzu og líka þegar maður langar allt í einu í pizzu en hefur ekki þolinmæði né peninga til þess að panta.

Þetta er mjög einfalt og það sem þú þarft er:

1 tortillaköku (mátt hafa tvær)

pizzasósu

frostþurrkaðan parmesanost

pizzaost

það álegg sem þú vilt, þetta er samt ekki botn sem hægt er að hlaða. í mesta lagi 2-3 álegg.

Þú byrjar á því að bleyta aðra hliðina á Tortillukökunni og stráir svo vel af parmesanosti yfir blautu hliðina. Ef þú vilt hafa þykkan botn þá mæli ég með því að þú notir tvær kökur með því að setja pizzaost vel út í kantana og pizzaost, svo seturu aðra köku yfir, nokkurs konar samloka. Því næst setur þú aftur Pizzasósu á kökuna, mundu vel út í kantana annars brenna þeir. Svo álegg og ost. Þetta er bakað við 240° C með blæstri í ofninum í 6 mín, ef þú vilt hafa hana svolítið stökka þá er gott að setja grill á í sirka 2 mín eða þar til osturinn er orðin brúnn.

Fyrir mallann minn er ein kaka nóg til þess að ég verði södd en það getur verið gaman að gera margar tegundir af pítsu þegar það eru fleiri en einn í mat.

Verði ykkur að góðu


Kjúklingasúpa fyrir sjúklinga

Nú er ég búin að liggja í haustflensunni í 5 daga og farin að þrá að komast út á meðal fólks. Ég er búin að fá nóg og tók málið í eigin hendur, vippaði fram nornapottinum staðráðin í að búa mér til gott seyði til að hrekja þessa flensu í burtu. Nú veit ég ekki um læknamátt súpunnar góðu þar sem ég var bara að sporðrenna henni á methraða en ég krossa fingur að hún þjóni sínu hlutverki.

Þetta er þægileg súpa en sterk, ef þér finnst hún of sterk þá er ekkert mál að setja meira vatn og smakka hana til. Það sem þú þarft er:

olía

1 kjúklingabringu

hálfan rauðlauk

1 hvítlauk

2 tsk raspað ferskt engifer

1-2 gulrætur

sellerí

7 bolla vatn

2 teninga kjúklingakraft

1 tening sveppakraft

1 tening grænmetiskraft

spagettí (má sleppa)

1 tsk karrý (má sleppa)

hot sauce/tabasco sósa

Þú byrjar á því að steikja laukinn, gulræturnar, selleríið og kjúklinginn uppúr olíu í stórum potti. Síðan setur þú engifer og hvítlauk útí og hitar lítillega með eða þar til þú finnur ilminn stíga upp. Því næst setur þú vatnið, kraftinn, hot sauce og karrý í pottinn. Þegar suðan er komin upp og er búin að haldast í um það bil 5 mín þá setur þú brotið spagettí í súpuna og síður í 10 mín í viðbót. Hvort sem þú ákveður að sleppa spagettíinu eða ekki þá er gott að setja meira/annað grænmeti í súpuna, t.d. brokkoli eða sætar kartöflur.

En ég get vottað það hér með að þessi súpa losar um kvef á "no time" hihihi

Verði ykkur að góðu og vonandi þurfið þið ekki að elda þessa súpu vegna veikinda heldur einungis ánægju og yndisauka :D


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband