Færsluflokkur: Bloggar
Auðveldur hrísgrjónaréttur á pönnu
20.8.2012 | 18:59
í þessari uppskrift þarftu að láta tilfinningu ráða varðandi hlutföll en hægt er að miða við 2 kjúklingalundir eða 1 bringu á mann og það er sirka 1 hrísgrjónapoka fyrir 2.
Það sem þú þarft er:
Kjúklingalundir/kjúklingabringur
Hrísgrjón
Rauða papriku
Sæta kartöflu
Maís (helst frosin)
Beikon
smjör eða olíu
karrý
Kjöt og grillkrydd
salt og pipar
kjúklingagrillkrydd
Fyrst setur þú upp hrísgrjónin og lætur sjóða á meðan þú steikir allt gúmmelaðið á pönnu. Fyrst setur þú smá olíu á pönnuna og steikir beikonið og kjúklinginn og kryddar með kjúklingagrillkryddi. Um leið og kjúklingurinn er búin að lokast þá setur þú sætu kartöflurnar út á niðurskornar í litla bita.
Þegar þetta er svo búið að steikjast aðeins þá setur þú annað hvort góðan slurk af olíu eða smjörklípu ásamt maísnum og paprikunni. Nú lækkar þú hitann um sirka helming og kryddar með salti og pipar. Þessu leyfir þú svo að malla í sirka 3-4 mín og hrærir reglulega svo smjörið brenni ekki.
Í lokin setur þú hrísgrjónin ofan á allt gumsið og dreifir aðeins úr þeim, ekki hræra, og kryddar með smá karrý og kjöt og grillkryddi. Nú slekkur þú undir og veltir öllu vel saman og berð fram með sýrðum rjóma eða góðri kaldri sósu. Mér finnst það samt óþarfi vegna þess að þegar þú lætur allt malla í smástund ertu að sameina bragðið af kjúllanum, kryddinu og grænmetinu sem fer svo utanum hvert einasta hrísgrjón.
Verði ykkur að góðu :D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Salsakjúlli í ofni
8.8.2012 | 20:38
Verið óhrædd við að nota það sem er til í ísskápnum í þennan rétt en það er gott að vera með viðmið þegar maður er að gera svona ofnrétt. Ég notaði svona hringlóttan ofnpott úr gleri og þá smellpassar rétturinn.
Það sem þú þarft er:
1 ferskur tómatur
4-6 kjúllalundir eða 2--3 bringur
1 hvítlaukur
2-300 gr sveppir
5-6 beikonsneiðar
1-2 krukkur salsa
Hot sauce (má sleppa)
Rifin ost
Gular baunir
1 poka hrísgrjón eða baunadýfu
3 tortillakökur
1 lauk (bara fyrir þá sem elska lauk)
Salt
Lamb islandia
Uppáhalds kjúklingakryddið
2-3 msk rjómaostur (má sleppa)
Þú byrjar á því að steikja kjúkling, sveppi, beikon, hvítlauk og lauk á pönnu og krydda og í lokin setur þú maísinn og hitar hann aðeins áður en þú setur salsað útá. Fyrir þá sem vilja hafa réttinn svolítið creamy geta notað rjómaost og þá minna af salsa í staðin. Hægt er að gera sósuna aðeins sterkari með því að bæta við hot sauce í grýtuna, þetta er látið malla í smástund.
Á meðan þú gerir þetta sýður þú hrísgrjónin. Nú þegar allt er tilbúið er komið að því að raða í ofnfatið. Fyrst smyrðu fatið vel með smjörlíki eða smjör og setur fyrstu tortillakökuna ofaní, síðan vel af baunadýfu eða hrísgrjónum og ofan á það fer grýtan og rifin ostur. Þetta gerir þú aftur og í lokin endar þú á því að setja Tortillu efst, sneiðir tómatinn niður og leggur með millibili ofan á tortilluna. Síðan saltar þú tómatinn lítillega ásamt lamb islandia kryddi. Í blálokin setur þú vel af rifnum osti yfir allt saman og setur í ofninn á grill, rétturinn er tilbúin þegar osturinn er orðin gulbrúnn.
Þetta er svo borið fram með fersku salati
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Kúskús-madness!!!
27.6.2012 | 20:51
Afsakið hvað ég er búin að vera lengi í burtu en ekki getur maður gert nýjann rétt alla daga :D Þessi réttur er auðveldur pönnuréttur sem sparar uppvask og hægt er að dressa hann upp sem forrétt eða góðan aðalrétt í matarboði. Hlutföllin eru frjáls eins og yfirleitt í mínu tilviki og eins og alltaf NOTAÐU ÍMYNDUNARAFLIÐ!!!
Það sem þú þarft er:
kjúklingur/grísakjöt/nautakjöt/lambakjöt/rækjur og humar
kúskús (annaðhvort með bragði eða hreint)
ferskt eða frosið grænmeti
góða marineringu
Smjörklípu/ólívuolía
Þegar ég gerði þetta í fyrsta skiptið þá notaði ég grísakjöt og Caj P. grillolíu sem marineringu, en það tekur mestan tíma í þessum rétti. Það er líka í lagi að flýta fyrir sér og þurrkrydda rétt áður en þú setur það á pönnuna.
Kúskús þarf mjög litla suðu eins og þú munt sjá á pakkanum, bara láta suðu koma upp á vatninu og láta kúskúsið liggja í vatninu í 5 mín. En ef þú kaupir hreint og ókryddað kúskús þá þarftu að krydda vatnið áður en þú lætur suðuna koma upp, best er að nota kraft í þetta en líka gaman að nota eitthvað af því kryddi sem þú finnur í skápnum þínum.
En óháð því hvaða kjöt eða marineringu þú notar þá byrjar þú á því að steikja kjötið ásamt smá slettu af marineringunni á pönnu og fljótlega setur þú grænmetið á og snöggsteikir. þegar þetta er tilbúið þá setur þú smjörklípu/ólívuolíu á pönnunna og leyfir að malla í smástund sem gerir alveg frábæra sósu. Á þessum tíma ætti kúskúsið að vera tilbúið, skellir því á pönnuna og blandar öllu vel saman.
Tillögur að mismunandi kjöti og marineringu
Kjúklingur = hvítlaukur, engifer, salt, pipar og olía
Svínakjöt = Caj P. grillolía eða þurrkrydda með kryddinu Mesquite
Lambakjöt = Lamb Islandia, olía, salt, pipar og pínu karrý
Rækjur og humar = chilliolía og sítrónusafi
Nautakjöt = rósmarín, salt, pipar, olía, rifin laukur
svo er hægt að sleppa kjötinu og marinera ferskt grænmeti í olíu, Lamb islandia, salt og pipar
Ef þið berið þetta fram sem aðalrétt þá setjið þið þetta á fallegt fat og berið fram með fersku salati og brauði
Ef þetta er borið fram sem forréttur þá mæli ég með því að skera kjöt og grænmeti mjög smátt, fylla paprikur með þessu, setja rifin ost efst og grilla í ofni í smástund
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:55 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Ný útgáfa af buffi og spæleggi
19.5.2012 | 19:55
Þegar ég var lítil þá gerði amma oft stórt buff með kryddi og lauk ásamt brúnni sósu, spæleggi og kartöflum. Þegar ég ætlaði að gera þennan rétt í kvöld þá ákvað ég að breyta honum aðeins með grillinu. Þessi uppskrift er fyrir einn og svo er hægt að margfalda hana samkvæmt fjölda matargesta.
Það sem þú þarft er:
150-200 gr nautahakk
sirka 1 lauk/rauðlauk
kjöt og grillkrydd
2-3 sneiðar beikon eða hálfa lúku af kurli
1 bökunarkartöflu
salt og pipar
Ég byrja á því að krydda hakkið og blanda því vel saman, mér finnst best að klípa hakkið saman. Þeir sem vilja hafa þetta sterk geta sett cayenepipar eða ferskan fínskorin chilipipar eða jalapeno út í kjötdeigið. Næst fínskerðu laukinn og beikonið og blandar vel saman. Næst mótar þú góða kjötlummu úr þessu, ekki vera hrædd við að hafa hann þunnan eða þykkan það er bara smekksatriði.
Næst skerðu bökunarkartöfluna í þykkar sneiðar langsum. Gott er að miða við bilið á milli rimlanna í grillinu, það er ekki gaman að veiða sneiðarnar upp ef þær detta á milli. Næst raðar þú sneiðunum á disk og setur smá olíu og salt á báðar hliðar.
Best er að brúna kartöflurnar vel á grillinu og setja þær svo á efri grindina til þess að klára eldunar tímann. Þar sem sneiðarnar eru frekar þykkar og buffið líka þá borgar sig að setja þetta samtímis á grillið. Eldunartíminn er um það bil 15-20 mín, fer að sjálfsögðu eftir þykkt buffsins og kartöfluskífanna.
Þetta er svo borið fram með spæleggi, kaldri piparsósu og fersku salati/steiktum sveppum og brokkoli.
Þessa uppskrift er svo líka hægt að nota til þess að gera sína eigin hamborgara á grillið og verið óhrædd við að setja allskonar krydd og grænmeti í kjötdeigið.
það gæti verðið gaman að prófa mexíkótvist á þessu með því að nota burritokrydd og grillaðar paprikur eða bandarískt tvist með kjöt og grillkryddi, lauki, súrum gúrkum og ferksum tómötum.
Verði ykkur að góðu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Naanborgari
4.5.2012 | 20:51
Þessa uppskrift fann ég á netvafri mínu en ég man því miður ekki hvar, eins og þeir sem hafa verið að skoða bloggið mitt vita þá er ég dasskokkur sem "improvíserar". En þetta er mjög góður borgari sem er annað hvort hægt að grilla eða skella á pönnuna. ég set inn uppskrift að einum borgara og svo er hægt að margfalda með fjölda fólks í mat.
það sem þú þarft er:
200 gr hakk
1/2 tsk karrý
hvítlaukssalt/venjulegt salt
pipar
FULLT af fersku grænmeti
kalda sósu
1 Naanbrauð með hvítlauk og kóríander
Byrjaðu á því að krydda hakkið með kryddinu og blanda vel saman og mynda vænan borgara úr því. Síðan skerð þú naan brauðið í tvennt. Þetta setur þú á grillið/pönnuna. Brauðið þarf auðvitað minni tíma en kjötið. Síðan setur þú borgarann þinn saman með grænmeti og sósu eftir smekk. Ég setti léttsósu með graslauk og steinselju og smá af sætri chillisósu á minn en mango chutnay eða annars konar kaldar sósur virka líka fínt.
Ef það er afgangur af naan brauðinu þá er gott að setja það í frystinn og borða seinna með pastarétti eða sem brauðstangir. Þá hendir þú brauðinu bara í ofninn á grill í smástund og skerð niður. Ef þú vilt gera ostabrauðstangir þá er gott að sáldra bara rifnum osti yfir áður en þú grillar og dýfir svo í pítsusósu.
Verði ykkur að góður :D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
þetta er alveg rosalega góður kjúlli en það er ekki nauðsynlegt að hafa sósu með. En það er hægt að gera sína eigin kalda sósu, t.d. karrýsósuna eða chillimajónesið sem ég minntist á fyrri færslu. Einnig er fullt af góðum köldum sósum tilbúnar úr búð eins og sæt chillisósa, köld sósa með graslau svo eitthvað sé nefnt
Marinering:
hvítlaukur
engifer
salt og pipar
olía
Lamb Islandia
1 Lime
fyrir utan marineringuna þarftu:
1 pakka kjúklingalundir
hrísgrjón
ferskt eða frosið grænmeti
krydd
Það sem þú byrjar á því að gera er að undirbúa maringeringuna daginn áður og láta standa á bekknum yfir nótt. Þú setur í raun allt hráefnið í marineringunni saman nema limeið. Hlutföllinn eru olía eftir því hversu mikið þú þarft og 50/50 engifer og hvítlauk og svo dass af kryddinu. Þetta finnst mér vera nauðsynlegt vegna þess að kjúklingur þarf litla marineringu en kryddið þarf tíma til að samlagast olíunni.
ef þú hefur ekki tíma til að gera marineringuna daginn áður er líka hægt að þurrkrydda kjúklinginn. það sem ég geri er að nota kryddin: Lamb islandia, kjúklingakrydd (þetta sem er í glæru kvörninni í Bónus), pipar og hvítlaukskrydd. ég krydda báðar hliðar klukkustund áður en ég grilla lundirnar
Daginn eftir setur þú kjúklingalundirnar í maringeringu í kæli sirka 2-3 tímum áður en þú ætlar að elda þær. Næst þræðir þú 3 lundir á hvern pinna og leggur á bakka eða skurðarbretti. Næst kreistir þú limesafanum yfir pinnanna og leyfir að standa í sirka 10 mín. Nú eru pinnarnir tilbúnir á grillið.
Ég er búin að setja uppskrift af steiktum hrísgrjónum áður en ég ætla samt að láta hana fylgja með aftur hér.
það sem þú þarft er
Hrísgrjón
Fajitaskrydd/salt og kjöt og grillkrydd
frosið eða ferskt grænmeti
gular baunir
Fyrir einn poka af hrísgrjónum er nóg að setja hálft bréf af fajitas kryddi. Þú þarft að setja kryddið í vatnið fyrst og sjóða það í um það bil 5 mín áður en þú setur hrísgrjónin útí. Taktu hrísgrjónin úr vatninu þegar 3 mín eru eftir af suðutímanum. Á meðan þetta sýður þá steikiru grænmetið, ekki gulubaunirnar. þegar allt er tilbúið þá setur þú hrísgrjónin og gulu baunirnar út á pönnuna með grænmetinu og steikir í nokkrar mín.
Verði ykkur að góðu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Orlyfiskur með chillimajónesi
29.3.2012 | 19:27
Yfirleitt tengir fólk Orlyfisk við djúpsteikingarpottinn sem kostar mikil þrif í lok máltíðar en ég hef fundið góða lausn á því að forðast þessi þrif.
Með því að hita slatta af olíu í djúpri pönnu, þarf ekki að hylja fiskinn, og dýfa fiskinum í þurrt hveiti eftir deigið þá er auðvelt að þrífa eftir þá eldamennsku.
Það sem þú þarft er:
fiskur skorin í passlega bita, helst góðan þrosk
um það bil 200 gr hveiti
1 egg
1 tsk lyftiduft
1 dós pilsner (helst Tuborg eða eitthvað álíka bragðsterkt)
smá saltklípu
krydd eftir smekk
slatti aukahveiti
Þú byrjar á því að blanda þurrefnunum vel saman. Kryddið sem ég nota er góður slatti kjöt og grillkrydd, Lamb islandia og svartur pipar og svo smáklípu af cayenne pipar og karrý. Síðan er egginu og slurk af pilsner sett útí þar til deigið fær svipaða áferð og vöffludeig, fyrir þá sem hafa aldrei gert vöfflur þá er áferðin frekar þykk. Best er að smakka deigið til ef þið eruð ekki viss með kryddið en deigið á að vera mjög sterkt vegna þess að bragðið minnkar þegar þú setur meira hveiti á blönduna fyrir steikingu.
Þegar olían er orðin vel heit þá dýfir þú fiskbitunum í Orlydeigið og svo veltir þú þeim varlega uppúr hveiti og leggur á pönnuna en hveitið kemur í veg fyrir að deigið renni á hliðarnar við steikingu. Þar sem þú þarft ekki að setja hrikalega mikið af olíu á pönnuna þarft þú að snúa fisknum. Best er að hreyfa sem minnst við fiskinum fyrst til að byrja með en eldunartími er misjafn eftir þykkt bitanna. Þegar þú ert búin að steikja fiskinn þá er hann lagður á dagblað eða eitthvað álíka á disk og olíunni leyft að renna af.
Fiskurinn er svo borin fram með salati og/eða grilluðum kartöflubátum eða sætum kartöflum. Það sem toppar Þetta algjörlega er chillimajónesið en það er auðvelt að búa það sjálf/ur til. Það eina sem þú þarft er fitulítið majónes og sæt chillisósa. Þetta tvennt blandar þú saman um það bil 50/50 í litla krukku og berð fram með fisknum. Ef þú ert með börn við matarborðið þá getur verið að þetta sé of sterkt fyrir þau en þá er hægt að gera kalda karrýsósu sem er líka góð með grilluðum kjúlla. Þá ertu með majónes/sýrðan rjóma og karrýduft, þessu er blandað vel saman og smakkað til en gallinn við þessa sósu er að hún þarf að fá að standa aðeins áður en hún er borin fram til þess að karrýið fái að leysast almennilega upp og sósan fær meira bragð.
Verði ykkur að góðu :D
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Grillað Baguette sem forréttur eða aðalréttur
18.3.2012 | 20:37
Þetta er alveg hrikalega gott bæði sem litlar snittur í forrétt eða bara heilt baguette í hádeginu eða kvöldmatinn. Ég kaupu ódýrt frosið hvítt Baguette í Bónus, þar færðu 5 baguette á um það bil 400 kr. Þú getur sett hvað sem er á þetta, þetta er er bara uppástunga að áleggi
Það sem þú þarft er:
1-2 Baguette, fer eftir því hversu margir eru að borða
pítsasósa
rifin ostur
ananas
skinka
Fetaostur
sólþurrkaðir tómatar
ólívur
beikon
Fyrst skerðu Baguettin langsum og smyrð með pítsasósu. Síðan setur þú Skinku, ananas og fetaost á annan helminginn og ólívur, sólþurrkaða tómata og beikon (yfir ostinn) á hinn. Síðan setur þú rifin ost yfir bæði brauðin.
Þetta setur þú í ofninn á 200°grill í um það bil 5-10 mín eða þar til þetta er orðið brúnt.
Ef þú ætlar að hafa þetta sem forrétt þá skerðu baguettin í 4 bita hvern helming eða bita sem eru sirka tveir munnbitar. Þetta er gott bæði heitt beint úr ofninum eða hálfkalt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Red Velvet" súkkulaðikaka
14.3.2012 | 14:09
Nú er að verða mánuður síðan ég setti eitthvað hérna inn síðast en ég fer nú að bæta úr því. Ég þurfti bara að prófa mig áfram í einhverju nýju og fá skemmtilegar hugmyndir áður en ég setti eitthvað meira hérna inn.
En núna ætla ég að setja inn uppskrift af "Red velvet" súkkulaðiköku, en ég fann þessa uppskrift á síðunni joyofbaking.com og setti hana inn á íslensku. Það er líka myndband á síðunni ef þið viljið sjá nákvæmlega hvernig þetta er gert.
Það sem þú þarft í botnana er:
250 gr sigtað hveiti
1/2 tsk salt
2 msk kakóduft
113 gr mjúkt alvöru smjör
300 gr sykur
2 stór egg
1 tsk vanilludropa
240 ml/1 bolla "buttermilk" (ég segi hvernig á að búa hana til neðar)
2 msk rauður matarlitur
1 tsk edik
1 tsk lyftiduft
Það hefur kannski hrætt ykkur að það er svokölluð buttermilk í uppskriftinni en það er ekkert mál að búa hana til og er hún ekkert ósvipuð venjulegri mjólk. Þú setur bara 1 msk sítrónusafa eða edik í mælimál og fyllir svo uppí 1 amerískan bolla af mjólk. Þetta lætur þú standa í um það bil 5 mínútur þannig að mjólkin yrjist aðeins en þessi blanda gerir kökuna mjúka.
þú byrjar á því að hita ofnin á 180° með blæstri þannig að hann sé alveg pottþétt vel heitur þegar deigið er tilbúið. síðan smyrð þú tvö hringlaga eða ferköntuð form með smjörlíki og setur sniðin smjörpappír í botninn. talið er upp hringlaga form sem eru 23 cm (9") í uppskriftinni en ég notaði ferköntuð álform sem eru merkt 8" (inches).
Fyrst setur þú hveitið, saltið og kakóið í skál og blandar vel saman. í aðra skál setur þú smjörið og mýkir það upp með handþeytara eða í hrærivél, síðan bætir þú sykrinum við og hrærir þar til þetta er orðið mjúkt og loftkennt. þegar þetta er tilbúið setur þú eggin í eitt í einu og síðan vanilludropunum og blandar vel saman.
Nú ertu komin með tvær blöndur í sitthvora skálina og "buttermilk" blandan ætti að vera tilbúin. Við hana bætir þú rauða matarlitnum og blandar varlega saman. farðu samt varlega með litinn vegna þess að það er erfitt að þrífa hann af.
nú er komið að því að setja allar blöndurnar varlega saman. fyrst setur þú hveitiblönduna í smjörblönduna, lítið í einu og mjólkurblönduna inn á milli. 3 sinnum hveitir og 2 sinnum mjólk. þetta er hrært smátt og smátt saman þar til þetta er vel blandað saman.
Nú er komið að því sem gerir þessa köku svo sérstaka en það er blandan af ediki og lyftidufti. Áður en þú býrð þig undir að setja þessa blöndu saman þá þarftu að vera tilbúin með sleif eða sleikju í skálinni og þarft að vera alveg eldsnögg/ur vegna þess að þegar þú setur þessi tvö efni saman myndast froða sem gerir botninn léttan. Eldsnöggt setur þú edikið útí lyftiduftið og svo beint útí deigið og blandar vel saman. síðan skiptir þú deiginu í tvennt og setur í formin, breiðir úr deiginu og setur strax í ofninn. þetta ferli þarf að gerast mjög snöggt. botnarnir eru svo bakaðir í 25-30 mín eða þar til þú getur stungið gaffli eða tannstöngli í miðjuna og hann komi hreinn upp aftur.
Síðan kælir þú botnana vel á meðan þú gerir kremið.
Það sem þú þarft í kremið er:
227 gr hreinan rjómaost
227 gr Mascarpone (mátt nota meira af venjulega rjómaostinum í staðin fyrir Mascarpone ef þú vilt)
1 tsk vanilludropa
115 gr flórsykur
360 ml rjóma
Rjómaostarnir þurfa að vera við herbergishita áður en þú byrjar. Fyrst setur þú ostana saman í skál og hrærir þá vel saman þar til þeir eru mjúkir. Síðan setur þú flórsykurinn og dropana saman við og hrærir þar til þetta er orðið mjúkt og loftkennt. Og síðast setur þú rjóman smátt og smátt saman við þessa blöndu síðan þeytir þú kremið þar til það er orðið nægilega stíft til að setja á kökuna.
Nú ættu botnarnir að vera orðnir kaldir, þú getur flýtt fyrir þér með því að setja þá í ísskápinn. En þar sem að þetta er fjögura hæða kaka þá þarf maður að vera flinkur við að skera botna. Ég setti botnanna í ísskápinn í sólahring þegar ég gerði þessa köku fyrst og áttaði mig ekki á því að botnarnir hálfféllu við það en risu svo aftur upp þegar ég setti kremið á. En gott húsráð þegar maður er að skera botna, sá það á gult.is, er að skera meðfram með hnífi, bara 2-3 cm inn. Og svo setja tvinna í raufina og draga saman.
síðan setur þú krem og botn til skiptis þar til kakan er fullhlaðin og svo setur þú krem efst og á hliðarnar. í uppskriftinni er tekið fram að það sé gott að setja kókos á kökuna sem skraut og hann myndi lítið sjást þá er annað hvort hægt að setja pínu matarlit í kremið eða lita kókosinn rauðan.
Ef þú vilt lita kókos þá er það lítið mál, þú setur bara smá vatn í skál með matarlit og setur svo slatta af kókos og veltir honum vel uppúr þessu. síðan dreifir þú þessu út á matardisk og setur í örbylgjuofninn á sirka 1 mín, stoppar, veltir honum aðeins um og svo aftur á 1 mín. Þetta kælir þú niður í ísskápnum eða frysti.
Þeir sem hafa áhuga á að sjá myndbandið sjálft geta séð það hérna:
http://www.joyofbaking.com/RedVelvetCake.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Núðlueggjakaka
16.2.2012 | 17:45
Þessi réttur er klæðskerasniðin að fátæka námsmanninum vegna þess að það eina sem þarf að vera til í þetta eru skyndinúðlur, egg, eitthvað krydd og rifin ostur restin er bara eitthvað sem þú finnur í ísskápnum.
Þegar ég gerði þetta fyrst notaði ég omilettupönnu en þeir sem eiga ekki svoleiðispönnu geta mögulega notað smurt eldfast mót.
Það sem ég notaði þegar ég gerði þetta fyrst var:
1 pakki skyndinúðlur
2 meðalstór egg
Beikon
Paprika
Rifin ostur
Kjöt og grillkrydd
Lamb islandia
Þú byrjar á því að sjóða núðlurnar og steikja beikonið. Á meðan þú bíður þá hræriðu eggjunum saman í skál og setur núðlurnar og beikonið út í og blandar vel saman. Hræran er svo sett á eldheita omilettupönnuna eða eldfast mót og dreift vel útí kantana. Þessu leyfir þú að steikjast í svona 2 mín. Á meðan þú bíður þá skerð þú paprikuna í litla bita og dreifir yfir hræruna ásamt kryddinu. Svo setur þú rifin ost yfir þetta allt saman.
Að lokum setti ég pönnuna inn í ofn á 200° með blæstri og grilli í um það bil 3-5 mín fer eftir þykktinni á omilettunni. Borið fram eitt og sér eða með góðu salati.
Þetta er geggjaður léttur hádegismatur eða gott snarl eftir djamm, ef maður vill hafa þetta djúsí þá er hægt að borða þetta með einhverri kaldri sósu.
Verði ykkur að góðu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)