Sumarlegt kartöflusalat með sætum kartöflum

Þessi uppskrift er samansafn margra annarra uppskrifta sem ég setti saman og prófaði um daginn. Þetta salat er ekki með neinni/lítilli fitu þar sem ég nota grískt jógúrt í stað majónes eða sýrð rjóma. Dressingin er mjög fersk og með margvíslegu kryddi sem hægt er að finna í flestum kryddskápum. Þar sem ég er dash-kokkur þá er málið að smakka sig áfram þar sem ég mældi ekki ofan í skálina þegar ég gerði þetta. Ég mun setja inn einhverjar mælingar en ekki vera hrædd um að laga skammtana til eftir þínum eigin smekk og smakka MIKIÐ til, jafnvel bæta við kryddi sem þér finnst gott. Þegar þú gerir kartöflusalat er talað um að það sé gott að gera það um það bil 24 tímum áður en þú ætlar að borða það en mér finnst í lagi að gera það 2 tímum fyrir.

Það sem þú þarft er:

3 venjulegar kartöflur

Sæta kartöflu, um það bil helmingin af venjulegu kartöflunum (t.d. 1 venjuleg á móti 1/2 sætri)

1 Dollu grískt jógúrt, þarft mögulega ekki alla dolluna.

Bréf púrrulauksúpu, þarft mögulega ekki allt bréfið.

1 hvítlauksgeira / 1/2 tsk hvítlauksmauk

1-2 tsk Dijon sinnep, ef þú ert hrifnari af sæta bragðinu geturu notað sætt sinnep.

salt og pipar

sítrónusafa

rauða papriku

búnt graslauk

vatn

Þú byrjar á því að skræla og skera niður kartöflurnar í bita á við hálfan munnbita, setur í saltað vatn og sýður í um það bil 2-3 mín. Ég vil persónulega hafa kartöflurnar pínu stökkar þannig að ég sýð þær frekar stutt og svo er betra að hræra dressinguna saman við. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar þá tekur þú soðvatnið af og setur ískalt vatn yfir og lætur þær liggja á meðan þú gerir dressinguna. Mundu að kartöflurnar eru sjóðandi heitar þannig að það getur verið að þú þurfir að skipta um vatn nokkrum sinnum áður en þú nærð því ísköldu.

Þú byrjar á því að setja gríska jógúrtið í skál ásamt pínu vatni og hrærir saman. Gott er að miða við magnið af kartöflum og hvort þú vilt mikið af dressingu eða lítið, mér finnst gott að hafa mikið þar sem maður má það :). Þú miðar vatnið við hversu þunna dressingu þú vilt hafa. Allt mjög persónubundið þar sem við erum jú öll með misjafnan smekk.

Næst setur þú restina af hráefninu með jógúrtinu nema paprikuna. Ef þú ert hrifin af lauk eins og ég þá er gott að setja svolítið mikið af púrrulaukssúpu en mundu að smakka þetta til og að dressingin verður aðeins sterkari þegar hún er búin að standa þar sem púrrulauksduftið leysist upp með tímanum og samlagast jógúrtinu betur. Þegar þú setur graslaukin í mæli ég með því að þú notar skæri og klippir þetta beint ofan í skálina og raspar hvítlaukin ofan í, getur líka notað 1/2 tsk af hvítlauksmauki sem hægt er að kaupa í krukkum.

Þegar dressingin er tilbúin þá skerð þú rauðu paprikuna niður í litla bita og setur allt saman í eina skál, líka kartöflurnar og dressinguna. Ef þú vilt vera fancy þá geturu skreytt með steinselju eða fínsöxuðu klettasalati áður en þú setur þetta á borðið.

Verði ykkur að góðu :D


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband