Færsluflokkur: Matur og drykkur

Grillaðir kjuklingaleggir kryddaðir inn að beini með sveppahrísgrjónum

ég sá á annarri uppskriftasíðu allskonar.is þar sem kjúklingaleggir voru hamflettir og marineraðir svoleiðis og ákvað að prófa það með mína útgáfu af marineringu.

það sem þú þarft er:

1 bakki kjúklingaleggir
ca. 1/4 olía
slurk af kryddi
smá þurrkað chilli
lamb islandia
sítrónupipar
Mesquite
slurk af sítrónusafa
1 poka hrísgrjón
1 tening sveppakraft
ca. 1 líter af vatni
ca. 2 tsk fajitaskrydd
slurk af þurrkuðum graslauk

það sem tekur mestan tíma er marineringin en það þarf að hafa leggina í marineringunni yfir nótt. þú byrjar á því að hamfletta leggina með því að stinga vísifingri á milli skins og vöðva og toga á milli. togar skinnið niður eins langt og þú kemst og skerð svo tætlurnar frá. síðan skerðu 2-3 rákir inn að beini á tvær hliðar á leggnum og leggur í marineringu. þetta leyfir marineringunni að komast betur að kjötinu og færð gott kryddbragð af öllu kjötinu en ekki bara að utan. þegar þú gerir maringeringuna er voðalega gott að blanda henni vel saman áður en þú hellir yfir leggina. ef marineringin nær ekki að hylja leggina fullkomlega er gott að snúa þeim þegar helmingur tímans er búin af marineringunni.

þegar leggirnir eru búnir að marinerast vel er hægt að annaðhvort grilla þá eða steikja á pönnu og setja í ofn, ég kýs að grilla þá. þegar maður grillar kjúkling þá þarf hann að hafa svolítið góðan tíma á grillinu en brennist auðveldlega. það sem ég geri er að brúna leggina vel á grindinni og set þá svo á efri grindina í sirka 5-10 mín með lokað grillið. þannig færðu fallega brúna leggi en fulleldaða.

á meðan þú ert að grilla leggina þá er gott að sjóða hrísgrjónin. vatni, sveppakrafti og fajitaskryddið er sett í pottinn ásamt 1 poka af hrísgrjónum, ef þú þarft meiri hrísgrjón er hægt að bæti örðum við en þá þarftu aðeins meira vatn og krydd. mér finnst alltaf best að láta suðuna koma upp með kryddinu og smakka soðið áður en ég set pokan ofaní. bragðið sem á að koma er vægt sveppabragð ásamt pínu "kicki" frá fajitaskryddinu. Ef þú fær þannig bragð þegar þú smakkast eru með hlutföllin rétt. þegar hrísgrjónin eru soðin setur þú þau í skál og blandar saman slurki af þurrkuðum graslauk og lætur standa í smástund.

þetta er svo borið fram saman, jafnvel með fersku salati líka.

Verði ykkur að góðu


Nanaimo stykki

Þetta er held ég ítalskur eftirréttur sem ég fann á netinu. Þetta er mjög auðvelt en tekur svolítin tíma þar sem þetta er þriggjalaga og það þarf að kæla á milli.

það sem þú þarft er:

Neðsta lagið =
150 gr smjör við stofuhita
50 gr sykur
30 gr kakóduft
1 hrært egg
1 tsk vanilludropa
1 pakki haustkexx frá Graham
65 gr kókosmjöl
50 gr hakkaðar hnetur (ég notaði heslinetur)

Fyrst setur þú smjörið í pott og bræðir, en passaðu þig að taka pottinn af áður en það fer að krauma. síðan setur þú sykurinn og kakóduftið og blandar vel saman. síðan setur þú eggið smátt og smátt í pottin og hrærir vel á milli með písk. Síðan hitar þú blönduna þar til hún er orðin þykk (1-2 mín). síðan tekur þú pottinn af hitanum og setur vanilludropana útí ásamt hnetunum og kókosmjölinu. síðan mylur þú kexið niður og setur útí blönduna. þessu er svo blandað vel saman. Blandan er síðan sett í smurt mót og þrýst niður, matarplast er sett yfir og kælt í 2 tíma.

Miðjan=
50 gr smjör við stofuhita
ca. 5 matskeiðar mjólk eða rjóma
2 msk vannillubúðingsduft
230 gr flórsykur

þetta er blandað saman í hrærivél eða handþeytara. Þú byrjar á því að mýkja upp smjörið í skál með þeytara síðan setur þú restina af hráefninu útí og hrært vel. ef þér finnst blandan vera of þykk þá bætir þú bara meiri mjólk/rjóma við eftir þörfum. Þetta er svo sett yfir neðsta lagið og kælt aftur í 30 mín

Efsta lagið =
200 gr suðusúkkulaði
30 gr smjör

þú byrjar á því að hálfbræða smjörið í potti og setur svo hluta af súkkulaðinu útí og bræði saman. þetta endurtekur þú þar til þú ert búin að bræða allt súkkulaðið saman við smjörið. Farðu samt varlega með hitan og taktu pottinn oft af hellunni.
Þessu er síðan hellt yfir og dreift úr því. Þetta er síðan kælt í 10 mín eða þar til súkkulaðið er búið að harðna.

Fyrir þá sem vilja þá er myndband af því hvernig þetta er gert á þessum link:
http://www.joyofbaking.com/NanaimoBars.html

Þetta er skorið í ferninga og borið fram.

Verði ykkur að góðu


Guðdómlegir Doritoskjúklingaleggir!!

Þessi kjúklingur er algjört æði og mjög stökkur án þess að djúpsteikja.

Það sem þú þarft er:
1 bakki kjúklingaleggir
majónes
1 poki sweet chilli Doritos eða venjulegar maísflögur og kryddar þá meira
hvítlaukssalt
Cayennepipar/chilliduft
Olía og pappír eða eldunarsprey

Þú byrjar á því að mylja Doritosið niður, ég notaði mortélið mitt en það er líka fínt að ýta krukku niður á flögurnar þar til þú ert búin að mylja það hæfilega niður. Síðan setur þú kryddið útá og blandar vel saman.

Næst smyrðu leggina með majónesi og veltir síðan uppúr Doritosblöndunni og setur í smurt eldfast mót. Þetta er svo eldað á 200° með blæstri í 30 mín. borið fram með frönskum eða kartöflubátum

Verði ykkur að góðu


Fljótlegur sjávarréttur á pönnu

Það er hægt að leika sér mikið með þennan rétt og er í raun uppskrift af 3 aðskildum réttum. Ef þú vilt fá pastarétt er hægt að hella réttinum yfir spagettí eða pastaskrúfur.Ef þú vilt frekar fá góðan fisk í ofni þá er bara að sjóða fisk í vatni með lárviðarlaufi og saltklípu og setja í eldfastmót. síðan hella pönnuréttinum yfir og dreifa rifnum osti yfir og grilla í ofni. Og síðast en ekki síst bera pönnuréttin einan og sér fram með hvítlauki eða hrísgrjónum.

Þegar ég gerði þennan rétt fyrst þá mældi ég bara kjúklingasoðið en restina dassaði ég bara útí, þetta fer bara eftir smekk. En þegar þú gerir kjúklingasoð er nóg að setja einn bolla af vatni og 1 tening kjúklingakraft í örbylgjuofn í 2 mín og leysa teninginn upp.

En það sem þú þarft er:
ca. 1 lúku niðurskornar ferskar snjóbaunir (ég kalla þetta bara baunabelgi)
ca 1 lúku niðurskorna papriku
ca, 1 lúku niðurskorna sveppi
2-4 beikonsneiðar
1 rifin hvítlauk
1 bolli kjúklingasoð
2 vænar lúkur rækjur
hálfan pakka krabbakjöt, litlu rauðu stangirnar
2 msk sítrónusafa
1/2 tsk hot sauce
Olía
salt og pipar
Hveiti
Rifin ost (má sleppa)
Fetaost (má sleppa)

Þú byrjar á því að steikja beikonið vel, gott að skera sneiðarnar niður í bita. Þegar þú ert búin að brúna beikonið þá setur þú sveppina, paprikuna og snjóbaunirnar og steikir í 1-2 mín. á meðan þetta steikist þá kryddar þú rækjurnar með salti og pipar og veltir þeim svo uppúr hveiti. síðan rífur þú hvítlaukinn niður á pönnuna og setur rækjurna út á með. þetta steikir þú bara örstutt og setur svo kjúklingasoðið, sítrónusafann og hot sauce útá. Þegar þetta er búið að malla í um það bil 1-2 mín setur þú niðurskorið krabbakjötið útá.

nú getur þú sett Fetaost út á ef þú vilt hafa sósuna þykka en það má sleppa því.
Síðan berðu þetta fram með rifnum osti og hvítlauksbrauði

Verði ykkur að góðu


Kjúklingapæ í ofni

Þar sem mig var bókstaflega farið að þyrsta í nýjar uppskriftir þá fór ég á náðir internetsins og leitaði að margvíslegum tegundum rétta, þar til ég rambaði inná síðu sem er tileinkuð suðurríkjaeldamennsku. Þar fann ég girnilega kjúklingagrýtu sem ég ákvað að setja saman sem kjúklingapæ, kemur frá réttinum spagettípæ. Vegna þessarar samsetningar er hægt að nota þessa uppskrift á tvenna vegu; annaðhvort að setja spagettí neðst í eldfast mót, grýtuna yfir og svo rifin ost eða setja hrísgrjón útí grýtuna setja í smurt eldfast mót og svo brauðteninga eða mylsnu yfir.

Ég veit að þetta er svolítið stór uppskrift en það er líka hægt að minnka kjúklingamagnið en gera sósuna samkvæmt uppskrift þar sem að þetta er ekkert rosalega dýrt hráefni.

Það sem þú þarft er:

3 kjúklingabringur
1 dós 5% sýrður rjómi, 180 gr
1 dós rjómakjúklingasúpa frá Campell
1 dós Hunt´s tómatar í bitum með basil, oregano og hvítlauk
1 lítill laukur
svipað magn sveppir, í samræmi við laukinn
salt og pipar
Lamb islandia krydd
hvítlaukssmjör, spagettí og rifin ost eða
hrísgrjón og brauðmylsna/brauðteningar
Olía til steikingar
pínu Cayenne pipar fyrir þá sem vilja hafa þetta sterkt

Fyrst byrjar þú á því að hita upp vatn með pínu salti í potti fyrir spagettíið/hrísgrjónin og hita upp pönnu með smá olíu á.
Næst setur þú smátt skorin laukinn og gróft skorna sveppina á pönnuna og steikir þar til blandan er orðin glær og mjúk. Þetta tekur þú af pönnunni og setur í stóra skál, setur meira í hana síðar. Síðan brytjar þú kjúklingabringurnar í grófa bita og steikir þar til gullinbrúnt á pönnunni, setur meiri olíu ef þarf. Þetta kryddar þú með salti og pipar og tekur frá í litla skál.

Næst tekur þú kjúklingasúpuna, sýrða rjómann og Lamb islandia kryddið og setur í stóru skálina með lauknum og sveppunum og blandar vel saman. Svo fylgir kjúklingurinn og tómatarnir, með safanum, eftir það og blandar varlega saman. Fyrir þá sem vilja hafa þetta sterkt setja smá Cayenne pipar í lokin og blanda saman

Nú er grýtan tilbúin og þá fer eftir því hvort þú ætlar að gera ofnréttinn með hrísgrjónum eða spagettí

Með spagettíi:
Spagettíið ætti að vera tilbúið núna en þú þarft að passa að fullsjóða það ekki þar sem það fer í ofninn og heldur áfram að eldast þar. skildu eftir um það bil 2-3 mín eftir af suðutímanum. Svo sigtar þú vatnið frá og veltir spagettíinu uppúr hvítlaukssmjöri og Lamb islandia kryddi og setur á botninn á eldföstu móti. Gott er að mæla hversu mikil af spagettíinu þú vilt hafa í mótinu, miðaðu við helming á móti grýtunni. Síðan setur þú grýtuna yfir ásamt rifnum osti efst og setur í ofninn á 180° á blæstri í um það bil 20 mín.

Með hrísgrjónum
Nú ættir þú að vera búin að sjóða hrísgrjónin og það gildir það sama og um spagettíið, ekki fullsjóða. síðan setur þú hrísgrjónin útá grýtuna og blandar varlega saman við. Næst setur þú grýtuna í smurt eldfast mót og annað hvort skerð þú nokkrar brauðsneiðar í litla bita, skerð skorpuna af, og dreifir efst yfir grýtuna eða notar brauðmylsnu. Þetta er svo sett í ofninn á 180° á blæstri í um það bil 20 mín

Það gæti verið gott að setja ólívur og beikon í grýtuna líka :D

Þetta er svo borði fram með góðu fersku salati, verði ykkur að góðu


Partýbollur/hakkbuff (hveitilaust)

Hakk er góður og hollur matur sem hægt er að matreiða á margan hátt ef þú hleypir bara ímyndunaraflinu lausu. Núna ætla ég að láta ykkur hafa hakkuppskrift sem er góð bæði í partýbollur eða hakkbuff. Þú þarft ekki að nota sama grænmeti og ég en uppistaðan er í raun hakk, laukur, krydd, egg og parmesanostur. Rest getur þú valið úr sjálf/ur en hafðu í huga að það þarf að skera þetta mjög smátt svo bollurnar haldist saman þegar  þæt eru eldaðar. þetta er fyrir um það bil 40 bollur

Það sem þú þarft er:

um það bil 400 gr hakk (ég notaði eina rúllu af sparhakki)

hálfan lauk

1 egg

tvær góðar lúkur frostþurrkaður parmesanostur (kemur í staðin fyrir hveiti eða Ritzkex)

um það bil 18 ólífur

8 kögglar frosið spínat

2 molar af nautakjötkraft

slurk af pipar

slurk af Lamb Islandia

smá beikon

hvítlauksolía/olía og hvítlauk

Þú byrjar á því að skera laukinn, beikonið og ólífurnar mjög smátt og blanda saman við hakkið. Síðan blandaru egginu og kjötkraftinum saman í sérskál, þetta er til þess að krafturinn dreifist sem mest. síðan blandaru eggjablöndunni saman við. Ég afþýði spínatið í vatnsbaði og kreisti svo eins mikin vökva úr áður en þú blandar því saman ásamt kryddi. þetta er svo hnoðað vel saman þar til hakkdeigið heldur sér vel. Ef þú átt ekki hvítlauksolíu þá er gott að rífa hvítlauk út í hakkið líka.

Nú hnoðaru bollurnar, það er best að skola hendurnar uppúr köldu vatni áður en þú byrjar og hafðu hugfast að ýta öllu lofti úr bollunum svo þær haldi lögun sinni. raðaðu þeim svo á ofnplötu, sáldra pínu olíu/hvítlauksolíu á þær og bakaðu á 200° á blæstri í um það bil 15 mín. þegar ég gerði þetta fyrst var stærðarinnar pollur í kringum bollurnar en engar áhyggjur þetta er eðlilegt.

næst tekuru þær af plötunni og lætur kólna aðeins og eldhúsbréfi, þetta tekur mestu olíuna úr.

Þessar bollur er tilvalið að frysta ef þetta er of mikið og borða seinna. En það eru alla veganna fjórar aðferðir til þess að bera þetta fram. þú getur hitað þær upp í brúnni sósu og bera fram með spæleggi og kartöflum, hitað upp í súrsætri sósu og bera fram með hrísgrjónum, hita upp í pítsasósu og bera fram með spagettíi eða fyrir krakkana hita upp í örbylgju og bera fram með kartöflum/frönskum og tómatssósu.

verði ykkur að góðu


Mexíkósk gúllassúpa

Ég ákvað að prófa að gera styttri leið að gúllassúpu. Þetta er mjög matarmikil súpa sem gott er að hita upp daginn eftir eða frysta og eiga seinna.

Það sem þú þarft er:

1 bréf mexíkó súpa frá Toro

9 dl. vatn

1 dl rjómi

1 dl sýrður rjómi

1 teningur nautakraftur

350 gr nautagúllas

2-3 gulrætur

3-4 kartöflur

2 msk tómatpúrra

hot sauce (má sleppa)

salt og pipar

1 laukur

Mér finnst gúllas alltaf of stórt skorið í pakkningunum þannig að ég byrja á því að skera það í minni bita og saxa niður laukinn. Þetta steiki ég í potti og krydda með salti og pipar, gott er að setja eitthvað gott kjötkrydd líka. Þegar kjötið er orðið brúnað þá seturu vel af vatni í pottinn og sýður í um það bil 25 mín. Næst seturu 9 l. af vatni ásamt súpuduftinu, rjómanum, sýrða rjómanum, tómatpúrrunni, kjötkraftinum og slatta af hotsauce í pott og hræra vel saman. Síðan flysjar þú og skerð niður gulrætur og kartöflur og setur í pottinn. Þegar gúllasið er búið að sjóða þá veiðiru það uppúr ásamt sem mestu af lauknum og setur í pottinn með súpunni og kveikir undir. Hægt er að sjóða súpuna á meðan gúllasið er að sjóða ef þú ert í tímaþröng. Kjötið er tilbúið og það þarf í raun bara að henda því í súpuna. Þegar suðan er komin upp á súpunni þá lætur þú þetta malla í 10 mín eða þar til kartöflurnar eru orðnar soðnar mundu að hræra með stuttu millibili þar sem það er rjómi í þessu.

Þetta er kannski ekki matur sem maður hendir saman á hálftíma en er alveg biðarinnar virði. En ef þú ert eins og ég mundu að blása vel á súpuna áður en þú smakkar hana.

Verði ykkur að góðu


Kjúklingasúpa fyrir sjúklinga

Nú er ég búin að liggja í haustflensunni í 5 daga og farin að þrá að komast út á meðal fólks. Ég er búin að fá nóg og tók málið í eigin hendur, vippaði fram nornapottinum staðráðin í að búa mér til gott seyði til að hrekja þessa flensu í burtu. Nú veit ég ekki um læknamátt súpunnar góðu þar sem ég var bara að sporðrenna henni á methraða en ég krossa fingur að hún þjóni sínu hlutverki.

Þetta er þægileg súpa en sterk, ef þér finnst hún of sterk þá er ekkert mál að setja meira vatn og smakka hana til. Það sem þú þarft er:

olía

1 kjúklingabringu

hálfan rauðlauk

1 hvítlauk

2 tsk raspað ferskt engifer

1-2 gulrætur

sellerí

7 bolla vatn

2 teninga kjúklingakraft

1 tening sveppakraft

1 tening grænmetiskraft

spagettí (má sleppa)

1 tsk karrý (má sleppa)

hot sauce/tabasco sósa

Þú byrjar á því að steikja laukinn, gulræturnar, selleríið og kjúklinginn uppúr olíu í stórum potti. Síðan setur þú engifer og hvítlauk útí og hitar lítillega með eða þar til þú finnur ilminn stíga upp. Því næst setur þú vatnið, kraftinn, hot sauce og karrý í pottinn. Þegar suðan er komin upp og er búin að haldast í um það bil 5 mín þá setur þú brotið spagettí í súpuna og síður í 10 mín í viðbót. Hvort sem þú ákveður að sleppa spagettíinu eða ekki þá er gott að setja meira/annað grænmeti í súpuna, t.d. brokkoli eða sætar kartöflur.

En ég get vottað það hér með að þessi súpa losar um kvef á "no time" hihihi

Verði ykkur að góðu og vonandi þurfið þið ekki að elda þessa súpu vegna veikinda heldur einungis ánægju og yndisauka :D


Fljótlegir hádegisréttir, lofa samt ekki að þetta séu heilsuréttir :D

Hér fyrir neðan ætla ég að setja inn nokkrar fljótlegar uppskriftir að hádegisréttum. Það er nú samt alveg hægt að borða þetta sem kvöldmat ef svo liggur á ykkur. En mér finnst stundum vera nauðsynlegt að fá sér góðan hádegismat en fá sér svo léttan kvöldmat á móti eins og súpu, skyr eða ristað brauð.

Núðlubrauð

Það eina sem þú þarft er:

1 pakki skyndinúðlur með kjúklingasoði

tvær ristaðar brauðsneiðar

2 egg

gott krydd, mér finnst kjöt og grill krydd best :)

þú byrjar á því að sjóða núðlurnar og spæla eggin. Mér finnst yfirleitt fólk ofsjóða þessar skyndinúðlur þannig að ég bendi á að það er meira en nóg að bíða eftir suðu, taka pottin af og láta bíða í 2 mín. Það fyrsta sem þú setur á diskinn eru brauðsneiðarna tvær, þú getur sett smjör á þær en mér finnst það óþarfi þar sem að soðið af núlunum bleytir það pínu upp og gefur gott bragð. því næst setur þú allar núðlurnar yfir brauðið þannig að þú sjáir ekkert nema núðlur á disknum. Næst seturu krydd yfir, ef þú ert mikið fyrir sterkan mat þá mæli ég með chilliolíu líka. Og síðast setur þú spæl eggin tvö yfir þetta allt saman. Þetta er síðan borðað með hnífi og gaffli, ég mæli ekki með að reyna að borða þetta sem samloku hihihi

Námsmannapasta/Verkamannapasta

Þessi réttur er tilvalin þegar það er lítið í ísskápnum vegna þess að á meðan þú hefur grunninn, smurost, mjólk/pítsusósu og krydd þá geturu breytt uppskriftinni í samræmi við hvað er til. en hér eru tvær uppástungur.

Rauð pylsusósa

Ég veit að ég hef sett inn pylsupasta áður en þetta er önnur útfærsla á sömu uppskrift.

Það sem þú þarft er:

Pítsusósa, það er í fínu lagi að nota úr flösku ef þú ert ein/einn

Toscanapylsur/sterkar Mexíkópylsur (má líka vera bara venjulegar vínarpylsur)

Parmesanost (ég nota bara þennan úr dollunni)

Rjómasmurost/smurost með sólþurrkuðum tómötum

Pipar, olíu og Lamb Islandia

Fyrst steikiru pylsurnar uppúr olíu þar til þær eru orðnar brúnar. Því næst seturu pístusósuna útá ásamt restinni af hráefninu og leyfir að bulla aðeins. Svo er bara að bíða eftir að pastað verði tilbúið

Hin pastasósan er rjómakenndari án þess að nota rjóma.

það sem þú þarft er:

Smurostur hvaða bragð sem þú villt, mér finnst það fara eftir gummsinu sem þú setur útí seinna

léttmjólk, bara smá dreitil

Svo getur þú sett það sem þér dettur í hug eða það sem er til í ísskápnum útí en hér eru nokkrar uppástungur.

beikon, paprika og laukur

kjúklingur, sætar kartöflur og baunabelgir

Það sem þú byrjar a því að gera er að steikja gumsið á pönnu með tilheyrandi kryddi ef þarf og olíu. Því næst setur þvú smá mjólk útá og slatta af smurosti og bræðir þetta saman.

Þetta er fyrir þá sem eru í átaki eða eru grænmetisætur

Gott salat er alltaf gott í hádeginu en stundum getur það verið frekar flatt að mínu mati, salat þarf að vera skemmtilegt en hérna eru tvö salöt sem gaman er að gera og borða :D

Kúrbítssalat

Það sem þú þarft er:

Einn kúrbítur (Zuccini)

Ferskt Spínat

Paprika

Rauðlaukur

Kirsuberjatómata

salt og pipar

Það sem mér finnst gott að gera er að grilla kúrbítinn, þú sneiðir hann niður í þunnar sneiðar langsum og kryddar með salti og pipar. Þú þarft ekki að hafa grill til þess að grilla kúrbít, það er alveg jafn fínt að nota samlokugrillið og þá þarftu ekki að setja olíu á hann áður :D Svo skerð þú niður restina af grænmetinu og setur í skál á meðan kúrbíturinn er að grillast. Þegar kúrbíturinn er til búin, komnar myndarlegar rendur á hann þá sker ég hann í minni ræmur og set efst á salatið Það er rosalega gott að snöggsteikja kirsjuberjatómatana og setja þá með kúrbítnum efst á salatið. Ef þú átt balsamikedik þá er það tilvalin dressing ef þú ert fyrir svoleiðis.

 Salat með ferskum ávöxtum

Þetta salat fékk ég hjá ömmu minni um daginn og hefði vel getað hugsað mér að borða það eitt og sér.

það sem þú þarft er:

Fersk jarðaber

Ferskt Mangó/niðursoðnar ferskjur

Lambhagasalat

Paprika

Agúrka

Vínber Græn/rauð

Þetta combó er æðislegt og þú þarft enga dressingu, þetta er allt skorið niður og sett í skál og svo bara moka þessu í sig :D

Svo í lokin vil ég koma með tvær hugmyndir fyrir þá sem nenna barasta ekki að elda neitt eða hafa fyrir matnum.

Í fyrsta lagi þá er rosalega gott að taka eina dós af túnfisk í vatni og setja BBQ sósu frá Hunt´s út á og hræra saman. Þetta er geggjað á ristað brauð með glasi af vatni eða sódavatni með sítrónu.

Í öðru lagi þá er rosagott að fá sér pítu eftir sínu eigin höfði án þess að borga augun úr. Það sem ég geri er að fara í Hagkaup og kaupa gróft pítubrauð og gott salat eða kjúklingapasta úr salatbarnum. Þegar ég kem heim þá sker ég smá rifu í brauðið, hita í sirka 20 sek í örbylgjuofninum og þegar ég nenni skelli ég brauðinu í samlokugrillið til að rista það. Svo er bara að troða brauðið út með góðgætinu sem ég keypti í salatbarnum og bíta í ;D

Ég ætla ekki að setja inn myndir fyrir þessa rétti þar sem þær taka svo mikið pláss á síðunni en annars vill ég hvetja fólk til að setja sinn svip á réttina og prófa sig áfram með það sem þeim finnst gott.


Kókossveppasúpa

Þú getur notað eitthvað annað en léttmjólk og smjör í þessa uppskrift en mér finnst það best, ég set uppástungur inní. En þessi uppskrift er fyrir tvo. Þér á kannski eftir að finnast þetta lítið fyrir tvo en hún er mjög saðsöm og góð.

Það sem þú þarft er:

Sveppir (mátt sleppa)

2 bita sveppakraft

svartur pipar

1 litla dós af kókósmjólk

smjör/matarolíu/smjörlíki/kókosolíu

léttmjókl/vatn (ef þú notar vatn þá verður hún hins vegar ekki eins saðsöm)

3-4 msk hveiti

Þú byrjar á því að smjörsteika sveppina og í lokin setur þú aukasmjörklípu, samtals sirka 25gr. Síðan setur þú hveitið útí og hrærir saman í smá deig og leyfir því að bulla smá í pottinum. Síðan setur þú kókosmjólkina útí ásamt smáslettu af léttmjólkinni. Þetta er allt hrært vel saman. Síðan setur þú kraftinn og piparinn útí. Piparinn er settur eftir smekk og eins með léttmjólkina, það fer bara eftir því hversu sterka súpu þú vilt og hversu þykka þú vilt hafa hana.

Þetta ber ég svo fram með ostasnittubrauði eða bara þurrum venjulegum  brauðsneiðum.

verði ykkur að góðu


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband