Guðdómlegir Doritoskjúklingaleggir!!
18.3.2012 | 20:27
Þessi kjúklingur er algjört æði og mjög stökkur án þess að djúpsteikja.
Það sem þú þarft er:
1 bakki kjúklingaleggir
majónes
1 poki sweet chilli Doritos eða venjulegar maísflögur og kryddar þá meira
hvítlaukssalt
Cayennepipar/chilliduft
Olía og pappír eða eldunarsprey
Þú byrjar á því að mylja Doritosið niður, ég notaði mortélið mitt en það er líka fínt að ýta krukku niður á flögurnar þar til þú ert búin að mylja það hæfilega niður. Síðan setur þú kryddið útá og blandar vel saman.
Næst smyrðu leggina með majónesi og veltir síðan uppúr Doritosblöndunni og setur í smurt eldfast mót. Þetta er svo eldað á 200° með blæstri í 30 mín. borið fram með frönskum eða kartöflubátum
Verði ykkur að góðu
Fljótlegur sjávarréttur á pönnu
18.3.2012 | 20:14
Það er hægt að leika sér mikið með þennan rétt og er í raun uppskrift af 3 aðskildum réttum. Ef þú vilt fá pastarétt er hægt að hella réttinum yfir spagettí eða pastaskrúfur.Ef þú vilt frekar fá góðan fisk í ofni þá er bara að sjóða fisk í vatni með lárviðarlaufi og saltklípu og setja í eldfastmót. síðan hella pönnuréttinum yfir og dreifa rifnum osti yfir og grilla í ofni. Og síðast en ekki síst bera pönnuréttin einan og sér fram með hvítlauki eða hrísgrjónum.
Þegar ég gerði þennan rétt fyrst þá mældi ég bara kjúklingasoðið en restina dassaði ég bara útí, þetta fer bara eftir smekk. En þegar þú gerir kjúklingasoð er nóg að setja einn bolla af vatni og 1 tening kjúklingakraft í örbylgjuofn í 2 mín og leysa teninginn upp.
En það sem þú þarft er:
ca. 1 lúku niðurskornar ferskar snjóbaunir (ég kalla þetta bara baunabelgi)
ca 1 lúku niðurskorna papriku
ca, 1 lúku niðurskorna sveppi
2-4 beikonsneiðar
1 rifin hvítlauk
1 bolli kjúklingasoð
2 vænar lúkur rækjur
hálfan pakka krabbakjöt, litlu rauðu stangirnar
2 msk sítrónusafa
1/2 tsk hot sauce
Olía
salt og pipar
Hveiti
Rifin ost (má sleppa)
Fetaost (má sleppa)
Þú byrjar á því að steikja beikonið vel, gott að skera sneiðarnar niður í bita. Þegar þú ert búin að brúna beikonið þá setur þú sveppina, paprikuna og snjóbaunirnar og steikir í 1-2 mín. á meðan þetta steikist þá kryddar þú rækjurnar með salti og pipar og veltir þeim svo uppúr hveiti. síðan rífur þú hvítlaukinn niður á pönnuna og setur rækjurna út á með. þetta steikir þú bara örstutt og setur svo kjúklingasoðið, sítrónusafann og hot sauce útá. Þegar þetta er búið að malla í um það bil 1-2 mín setur þú niðurskorið krabbakjötið útá.
nú getur þú sett Fetaost út á ef þú vilt hafa sósuna þykka en það má sleppa því.
Síðan berðu þetta fram með rifnum osti og hvítlauksbrauði
Verði ykkur að góðu
Kjúklingapæ í ofni
15.3.2012 | 19:31
Þar sem mig var bókstaflega farið að þyrsta í nýjar uppskriftir þá fór ég á náðir internetsins og leitaði að margvíslegum tegundum rétta, þar til ég rambaði inná síðu sem er tileinkuð suðurríkjaeldamennsku. Þar fann ég girnilega kjúklingagrýtu sem ég ákvað að setja saman sem kjúklingapæ, kemur frá réttinum spagettípæ. Vegna þessarar samsetningar er hægt að nota þessa uppskrift á tvenna vegu; annaðhvort að setja spagettí neðst í eldfast mót, grýtuna yfir og svo rifin ost eða setja hrísgrjón útí grýtuna setja í smurt eldfast mót og svo brauðteninga eða mylsnu yfir.
Ég veit að þetta er svolítið stór uppskrift en það er líka hægt að minnka kjúklingamagnið en gera sósuna samkvæmt uppskrift þar sem að þetta er ekkert rosalega dýrt hráefni.
Það sem þú þarft er:
3 kjúklingabringur
1 dós 5% sýrður rjómi, 180 gr
1 dós rjómakjúklingasúpa frá Campell
1 dós Hunt´s tómatar í bitum með basil, oregano og hvítlauk
1 lítill laukur
svipað magn sveppir, í samræmi við laukinn
salt og pipar
Lamb islandia krydd
hvítlaukssmjör, spagettí og rifin ost eða
hrísgrjón og brauðmylsna/brauðteningar
Olía til steikingar
pínu Cayenne pipar fyrir þá sem vilja hafa þetta sterkt
Fyrst byrjar þú á því að hita upp vatn með pínu salti í potti fyrir spagettíið/hrísgrjónin og hita upp pönnu með smá olíu á.
Næst setur þú smátt skorin laukinn og gróft skorna sveppina á pönnuna og steikir þar til blandan er orðin glær og mjúk. Þetta tekur þú af pönnunni og setur í stóra skál, setur meira í hana síðar. Síðan brytjar þú kjúklingabringurnar í grófa bita og steikir þar til gullinbrúnt á pönnunni, setur meiri olíu ef þarf. Þetta kryddar þú með salti og pipar og tekur frá í litla skál.
Næst tekur þú kjúklingasúpuna, sýrða rjómann og Lamb islandia kryddið og setur í stóru skálina með lauknum og sveppunum og blandar vel saman. Svo fylgir kjúklingurinn og tómatarnir, með safanum, eftir það og blandar varlega saman. Fyrir þá sem vilja hafa þetta sterkt setja smá Cayenne pipar í lokin og blanda saman
Nú er grýtan tilbúin og þá fer eftir því hvort þú ætlar að gera ofnréttinn með hrísgrjónum eða spagettí
Með spagettíi:
Spagettíið ætti að vera tilbúið núna en þú þarft að passa að fullsjóða það ekki þar sem það fer í ofninn og heldur áfram að eldast þar. skildu eftir um það bil 2-3 mín eftir af suðutímanum. Svo sigtar þú vatnið frá og veltir spagettíinu uppúr hvítlaukssmjöri og Lamb islandia kryddi og setur á botninn á eldföstu móti. Gott er að mæla hversu mikil af spagettíinu þú vilt hafa í mótinu, miðaðu við helming á móti grýtunni. Síðan setur þú grýtuna yfir ásamt rifnum osti efst og setur í ofninn á 180° á blæstri í um það bil 20 mín.
Með hrísgrjónum
Nú ættir þú að vera búin að sjóða hrísgrjónin og það gildir það sama og um spagettíið, ekki fullsjóða. síðan setur þú hrísgrjónin útá grýtuna og blandar varlega saman við. Næst setur þú grýtuna í smurt eldfast mót og annað hvort skerð þú nokkrar brauðsneiðar í litla bita, skerð skorpuna af, og dreifir efst yfir grýtuna eða notar brauðmylsnu. Þetta er svo sett í ofninn á 180° á blæstri í um það bil 20 mín
Það gæti verið gott að setja ólívur og beikon í grýtuna líka :D
Þetta er svo borði fram með góðu fersku salati, verði ykkur að góðu
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 19:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
"Red Velvet" súkkulaðikaka
14.3.2012 | 14:09
Nú er að verða mánuður síðan ég setti eitthvað hérna inn síðast en ég fer nú að bæta úr því. Ég þurfti bara að prófa mig áfram í einhverju nýju og fá skemmtilegar hugmyndir áður en ég setti eitthvað meira hérna inn.
En núna ætla ég að setja inn uppskrift af "Red velvet" súkkulaðiköku, en ég fann þessa uppskrift á síðunni joyofbaking.com og setti hana inn á íslensku. Það er líka myndband á síðunni ef þið viljið sjá nákvæmlega hvernig þetta er gert.
Það sem þú þarft í botnana er:
250 gr sigtað hveiti
1/2 tsk salt
2 msk kakóduft
113 gr mjúkt alvöru smjör
300 gr sykur
2 stór egg
1 tsk vanilludropa
240 ml/1 bolla "buttermilk" (ég segi hvernig á að búa hana til neðar)
2 msk rauður matarlitur
1 tsk edik
1 tsk lyftiduft
Það hefur kannski hrætt ykkur að það er svokölluð buttermilk í uppskriftinni en það er ekkert mál að búa hana til og er hún ekkert ósvipuð venjulegri mjólk. Þú setur bara 1 msk sítrónusafa eða edik í mælimál og fyllir svo uppí 1 amerískan bolla af mjólk. Þetta lætur þú standa í um það bil 5 mínútur þannig að mjólkin yrjist aðeins en þessi blanda gerir kökuna mjúka.
þú byrjar á því að hita ofnin á 180° með blæstri þannig að hann sé alveg pottþétt vel heitur þegar deigið er tilbúið. síðan smyrð þú tvö hringlaga eða ferköntuð form með smjörlíki og setur sniðin smjörpappír í botninn. talið er upp hringlaga form sem eru 23 cm (9") í uppskriftinni en ég notaði ferköntuð álform sem eru merkt 8" (inches).
Fyrst setur þú hveitið, saltið og kakóið í skál og blandar vel saman. í aðra skál setur þú smjörið og mýkir það upp með handþeytara eða í hrærivél, síðan bætir þú sykrinum við og hrærir þar til þetta er orðið mjúkt og loftkennt. þegar þetta er tilbúið setur þú eggin í eitt í einu og síðan vanilludropunum og blandar vel saman.
Nú ertu komin með tvær blöndur í sitthvora skálina og "buttermilk" blandan ætti að vera tilbúin. Við hana bætir þú rauða matarlitnum og blandar varlega saman. farðu samt varlega með litinn vegna þess að það er erfitt að þrífa hann af.
nú er komið að því að setja allar blöndurnar varlega saman. fyrst setur þú hveitiblönduna í smjörblönduna, lítið í einu og mjólkurblönduna inn á milli. 3 sinnum hveitir og 2 sinnum mjólk. þetta er hrært smátt og smátt saman þar til þetta er vel blandað saman.
Nú er komið að því sem gerir þessa köku svo sérstaka en það er blandan af ediki og lyftidufti. Áður en þú býrð þig undir að setja þessa blöndu saman þá þarftu að vera tilbúin með sleif eða sleikju í skálinni og þarft að vera alveg eldsnögg/ur vegna þess að þegar þú setur þessi tvö efni saman myndast froða sem gerir botninn léttan. Eldsnöggt setur þú edikið útí lyftiduftið og svo beint útí deigið og blandar vel saman. síðan skiptir þú deiginu í tvennt og setur í formin, breiðir úr deiginu og setur strax í ofninn. þetta ferli þarf að gerast mjög snöggt. botnarnir eru svo bakaðir í 25-30 mín eða þar til þú getur stungið gaffli eða tannstöngli í miðjuna og hann komi hreinn upp aftur.
Síðan kælir þú botnana vel á meðan þú gerir kremið.
Það sem þú þarft í kremið er:
227 gr hreinan rjómaost
227 gr Mascarpone (mátt nota meira af venjulega rjómaostinum í staðin fyrir Mascarpone ef þú vilt)
1 tsk vanilludropa
115 gr flórsykur
360 ml rjóma
Rjómaostarnir þurfa að vera við herbergishita áður en þú byrjar. Fyrst setur þú ostana saman í skál og hrærir þá vel saman þar til þeir eru mjúkir. Síðan setur þú flórsykurinn og dropana saman við og hrærir þar til þetta er orðið mjúkt og loftkennt. Og síðast setur þú rjóman smátt og smátt saman við þessa blöndu síðan þeytir þú kremið þar til það er orðið nægilega stíft til að setja á kökuna.
Nú ættu botnarnir að vera orðnir kaldir, þú getur flýtt fyrir þér með því að setja þá í ísskápinn. En þar sem að þetta er fjögura hæða kaka þá þarf maður að vera flinkur við að skera botna. Ég setti botnanna í ísskápinn í sólahring þegar ég gerði þessa köku fyrst og áttaði mig ekki á því að botnarnir hálfféllu við það en risu svo aftur upp þegar ég setti kremið á. En gott húsráð þegar maður er að skera botna, sá það á gult.is, er að skera meðfram með hnífi, bara 2-3 cm inn. Og svo setja tvinna í raufina og draga saman.
síðan setur þú krem og botn til skiptis þar til kakan er fullhlaðin og svo setur þú krem efst og á hliðarnar. í uppskriftinni er tekið fram að það sé gott að setja kókos á kökuna sem skraut og hann myndi lítið sjást þá er annað hvort hægt að setja pínu matarlit í kremið eða lita kókosinn rauðan.
Ef þú vilt lita kókos þá er það lítið mál, þú setur bara smá vatn í skál með matarlit og setur svo slatta af kókos og veltir honum vel uppúr þessu. síðan dreifir þú þessu út á matardisk og setur í örbylgjuofninn á sirka 1 mín, stoppar, veltir honum aðeins um og svo aftur á 1 mín. Þetta kælir þú niður í ísskápnum eða frysti.
Þeir sem hafa áhuga á að sjá myndbandið sjálft geta séð það hérna:
http://www.joyofbaking.com/RedVelvetCake.html
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Núðlueggjakaka
16.2.2012 | 17:45
Þessi réttur er klæðskerasniðin að fátæka námsmanninum vegna þess að það eina sem þarf að vera til í þetta eru skyndinúðlur, egg, eitthvað krydd og rifin ostur restin er bara eitthvað sem þú finnur í ísskápnum.
Þegar ég gerði þetta fyrst notaði ég omilettupönnu en þeir sem eiga ekki svoleiðispönnu geta mögulega notað smurt eldfast mót.
Það sem ég notaði þegar ég gerði þetta fyrst var:
1 pakki skyndinúðlur
2 meðalstór egg
Beikon
Paprika
Rifin ostur
Kjöt og grillkrydd
Lamb islandia
Þú byrjar á því að sjóða núðlurnar og steikja beikonið. Á meðan þú bíður þá hræriðu eggjunum saman í skál og setur núðlurnar og beikonið út í og blandar vel saman. Hræran er svo sett á eldheita omilettupönnuna eða eldfast mót og dreift vel útí kantana. Þessu leyfir þú að steikjast í svona 2 mín. Á meðan þú bíður þá skerð þú paprikuna í litla bita og dreifir yfir hræruna ásamt kryddinu. Svo setur þú rifin ost yfir þetta allt saman.
Að lokum setti ég pönnuna inn í ofn á 200° með blæstri og grilli í um það bil 3-5 mín fer eftir þykktinni á omilettunni. Borið fram eitt og sér eða með góðu salati.
Þetta er geggjaður léttur hádegismatur eða gott snarl eftir djamm, ef maður vill hafa þetta djúsí þá er hægt að borða þetta með einhverri kaldri sósu.
Verði ykkur að góðu
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Random brauð, já ég ætla að kalla brauðið þetta hihihi
3.2.2012 | 19:40
Ég var ekki viss hvað í ósköpunum ég átti að kalla þetta snilldarbrauð þar sem það er sitt lítið af hverju í þessu brauði og hægt að hafa það eftir sínu eigin höfði eða innihaldi ísskápsins. Ég ætla ekki að setja inn gerdeigsuppskrift þar sem ég mæli allt með auganu þegar ég geri mitt og hef ekki hugmynd um mælieiningarnar í þessu en hvaða uppskrift hentar.
Það sem þú þarft í brauðið er:
Ger/spelt/heilhveiti deig
Rifin ostur
hvítlaukur
Kóríander
ólívur
Þú byrjar á því að setja allt þurrefni í skál ásamt ostinum, hvítlauknum, kóríander og ólífum og hrærir öllu vel saman. þetta gerir þú til þess að koma í veg fyrir að kryddið og osturinn klístrist saman. svo fara blautefnin útí og hrært í deig.
Því næst mótar þú deigið eins og þú vilt hafa það og lætur hevast....hefast (hef ekki hugmynd hvernig ég á að skrifa þetta orð). Gott ráð fyrir hevingu er að ef þú átt þurrkara þá er það fullkomin tími til að þurrka. Ég set yfirleitt viskastykki yfir brauðið og geymi inni í þvottahúsi í hálftíma á meðan þurrkarinn er í gangi. þurrkarinn myndar fullkomið umhverfi fyrir gerið, hita og raka :D
Hugmyndir fyrir brauðið:
Þú getur annað hvort gert bollur eða snittubrauð úr því og haft með súpu. haft deigið í heilu lagi og notað sem samlokubrauð. Eða fletja brauðið út, setja hvítlauksolíu og rifin ost og nota sem öðruvísi hvítlauksbrauð. Eða gera fyllta brauðhleifa sem heila máltíð
Hugmynd af fyllingu:
Frosið/ferskt spínat
steikt beikon
Sveppasmurostur
paprika
Harðsoðin egg
rifin pepperoneostur
Ef þú notar frosið spínat er nauðsynlegt að afþýða það og kreista vökvann vel úr áður en þú setur á útflatt deigið. Þegar þú ert búin að raða fyllingunni á þá leggur þú deigið yfir þannig að endarnir fari undir botninn og þéttir vel.
Verið óhrædd við að prófa allskonar fyllingar, þess vegna taka út allt sem er til í ísskápnum og setja inní deigið.
Verði ykkur að góðu
Bloggar | Breytt s.d. kl. 19:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Heilsteiktur kjúklingur fyrir klaufana
2.2.2012 | 19:01
Loksins komin aftur úr mjög löngu jólafríi. Ég vil byrja nýja árið á súpereinföldum og bragðgóðum kjúklingi sem engin getur klúðrað. Hann er hins vegar ekki neitt hrikalega heilsusamlegur :)
En ég sá þessa aðferð í þætti Jamie Oliver og féll fyrir þessu.
Það sem þú þarft er:
Heill kjúklingur
Fuullt af mjúku kryddsmjöri/hvítlaukssmjöri
kjúklingakrydd að eigin vali
1-2 sítrónur
1-2 lauka
1-2 rósmaríngreinar
Eins og ég sagði að ofan er þetta súpereinfalt og fljótlegt að gera. Þú byrjar á því að snyrta í kringum gatið þar sem innyflin eru tekin úr, þetta geriru til þess að skilja húðina frá vöðvanum án þess að taka húðina af. Þegar þú ert búin að snyrta í kringum gatið, s.s. taka mestu fituna frá þá ýtir þú varlega á milli vöðva og húðar þannig að það myndist poki yfir bringuna, lærin og leggina. Nú setur þú eins mikið kryddsmjör og þú getur inní þessa poka og dreifa því vel. Þegar þú ert búin að setja smjörið inní er gott að nota afgangssmjörið á höndunum á þér utan á kjúklinginn. Sumir vilja gera sitt eigin kryddsmjör sem er ekkert mál, lint alvöru smjör í skál ásamt alls konar kryddi/hvítlauk en þú getur líka keypt það tilbúið. Ef ég mundi miða við keypt smjör sem er svona ávallt þá væri örugglega nóg að kaupa tvær rúllur. Ef þú vilt búa til smjörið sjálf þá er alltaf hægt að setja það í matarfilmu og setja í frystinn fram að sumri með grillmatnum.
Nú er kjúllinn fullur af smjör og þá er komið að því að fylla kviðarholið. Skerðu sítrónurnar og laukinn í tvennt, laukurinn fer inn án hýðis, og merðu rósmaríngreinarnar aðeins, Hægt er að beygja greinarnar aðeins eða berja með kjöthamri. þessu er öllu troðið inn í kjúklinginn, það er allt í lagi þó að það stingist aðeins út en magnið af sítrónu, lauk og rósmaríngreinum fer eftir stærð kjúklingsins.
Settu nú kjúklinginn á ofnfat og dreifðu kjúklingakryddi yfir, mér finnst kjúklingasteikarkryddið sem ég fæ í Bónus alveg æði en svo er líka gott að setja kjöt og grillkrydd ásamt hot sauce á kjúllann. Kryddið sem þú setur á kjúllann fer eftir því hvort þú vilt hafa hann þungan eða ferskan. hægt er að fletta upp allskonar kryddblöndum á google og fá skemmtilegar og öðruvísi hugmyndir. Mundu að nudda kryddinu vel í húðina ásamt afgangssmjörinu sem ég minntist á ofar.
Eldunartíminn fer að sjálfsögðu eftir stærð kjúklingsins en ég miða við tæplega kíló og 60 mín á 180° á blæstri. Þeir sem vilja hafa húðina krusty þá mæli ég með að þið stillið á 200° grill síðasta korterið.
Ef þið viljið bera kjúklinginn fram með rótargrænmeti eins og sætum og venjulegum kartöflum og pínu rauðlauk er gott að skella því í kringum kjúklinginn á fatinu um það bil hálftíma áður en hann á að vera tilbúin en það fer að sjálfsögðu eftir stærð grænmetisins.
Þetta er svo allt saman borið fram með góðri heitri sósu. Ég vil annað hvort fá góða sveppasósu eða rjómaBBQ sósu.
Fyrir þá sem vilja BBQ sósuna þá er hún mjög einföld líka.
Þú þarft:
BBQ orginal sósu
matarrjóma
Mangó chutney
Þetta er allt saman sett í pott og hrært saman, magnið fer eftir þínum bragðlaukum. ef þú vilt mikið rjómabragð þá er rjóminn í meirihluta ef þú ert meira fyrir BBQ þá er það í meirihluta. Ég vil setja pínu sósujafnara út í þetta vegna þess að þetta er frekar þunn sósa og ég vil hafa sósuna þannig að ég geti smurt henni á bitann.
Verði ykkur að góðu :D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólakonfekt
4.12.2011 | 22:46
Ég er ekki mikið fyrir smákökur en mér finnst alveg agalega gaman að baka þær. Síðustu ár hef ég því farið hægt og hægt yfir í jólakonfektgerð frekar en smákökur á jólunum þar sem ég hef alltaf setið uppi með slatta af afgangssmákökur. Mér finnst jólakonfektgerð svo skemmtileg vegna þess að ég get alveg gleymt stund og stað við þetta svo er þetta sniðug og persónuleg jólagjöf handa þeim sem eiga allt. Það er ekkert mál að gera 4-5 tegundir af konfekti, pakka því inn í Sellófan og setja fallegan borða og orðsendingu með. En núna ætla ég að gefa ykkur smá hugmyndir af konfekti sem er auðvelt að gera, alveg frá einföldustu tegundinni yfir í eitthvað aðeins flóknara.
Fyrst ætla ég að gefa ykkur smá ráð við að bræða súkkulaði. Það eru 3 aðferðir til þess að bræða súkkulaði, ef þið vitið um fleiri þá endilega setjið í athugasemdir. En sú fyrsta er að bræða í örbylgjuofn, þetta krefst þess að þú hitar upp smátt og smátt en það er hætta á að það brenni við.
Önnur aðferðin er að bræða yfir vatnsbaði, þú setur vatn í pott og súkkulaði í aðeins minni skál er látin fljóta yfir. Þetta getur verið tímafrekt og það er hætta á að þú brennir þig á gufunum meðfram efri skálinni.
Þriðja aðferðin sem ég held mest uppá sá ég í þætti Jóa Fel í fyrra, og það er að brytja súkkulaðið niður í skál og nota hárblásara til að bræða súkkulaðið. með þessari aðferð er engin hætta á að brenna súkkulaðið né þig. Ef þú notar þessa aðferð þá er í lagi þó að súkkulaðibitarnir séu ekki alveg bráðnir, bara hræra aðeins í súkkulaðinu og hitin af hinu bærðir restina.
Appelsínuklattar
þetta er mjög auðvelt og allir geta gert þetta, ég sá Jóa Fel gera þetta í þættinum sínum í fyrra og varð ástffangin af þessu konfekti. Það sem þú þarft er appelsínusúkkulaði og þurrkaðar apríkósur. Þú byrjar á því að bræða súkkulaðið, hella því yfir smjörpappír og dreifa úr því. Gott er að miða við stærð súkkulaðsins áður en þú bræðir það niður. s.s. ef þú notar eina plötu af appelsínusúkkulaði þá breiðiru úr bráðnu súkkulaðinu 2x stærra en það.
Næst saxaru niður apríkósurnar og setur yfir súkkulaðið áður en það harðnar. þetta er svo sett inn í ísskáp í um það bil 10 mín. þegar platan er hörðnuð þá geturu annað hvort brotið þetta niður í bita eða skorið með hníf.
Núggatmolar með möndlum
Þessa tegund gerði ég í fyrsta skiptið í ár og hún heppnaðist rosalega vel. Það eina sem þú þarft er núggat stykki, hakkaðar möndlur og súkkulaði. Þú byrjar á því að skera niður núggatið í litla bita, ekki hafa þá of stór þá er núggatið of ríkjandi. Síðan hjúpari núggatbitana í súkkulaði og veltir þeim strax upp úr möndlunum. Bitinn er settur á smjörpappír þar til hann harðnar. Þeir sem eru aðdáendur marsipans geta flatt út marsipan með flórsykri og vafið utan um núggatmolan áður en þú hjúpar með súkkulaði.
Banana/sítrónulurkar
Ég gerði þetta konfekt fyrst með mömmu minni þegar ég var lítil og þá var hægt að fá bananadropa en þegar ég ákvað að gera þetta í fyrra þá fann ég hvergi þessa dropa, ef einhver viet hvar hægt er að fá þetta eru allar ábendingar vel þegnar. Þó svo að ég hafi ekki fundið þessa dropa þá lét ég ekki deigann síga og notaði bara sítrónudropa í staðinn. Það sem þú þarft er ein meðalstór soðin kartafla, sigtaðan flórsykur (ég gef ekki upp magn vegna þess að það er misjafnt eftir stærð kartöflunnar), súkkulaði (mér finnst dökkt best) og sítrónudropar. Þú blandar saman stappaðri kartöflunni og flórsykurnum og setur smáslurk af dropunum með. í byrjun veður þetta mjög fljótandi en ekki láta það hræða þig á endanum verður þetta að deigi sem hægt er að hnoða, flórsykur notað sem hveiti. Deigið er mótað í litla bita sem er svo velt uppúr súkkulaði. En eitt ráð áður en þú byrjar, ekki lláta blekkjast af stærð kartöflunnar, um það bil 70% af deiginu er flórsykur þannig að ekki hafa of stóra kartöflu.
Fylltir súkkulaðimolar
Fyrst þegar ég prófaði að gera þessa mola kom það mér á óvart hversu auðvelt það var að gera þá. Ég fékk fyrst þessa hugmynd þegar ég rambaði á konfektmót úr plasti í húsasmiðjunni í fyrra. Hægt er að leika sér að þessum molum á margan hátt en ég ætla að byrja á því að segja ykkur hvernig ég set þetta í mótin og svo ætla ég að gera lista yfir hugmyndir að fyllingu.
Fyrst gerir þú fyllingu, ef hún er búin til, stundum er þetta bara keypt. Síðan bræðir þú niður slatta af súkkulaði. Ef þú átt ekki mót eða finnur það ekki í búðum þá getur verið að það sé hægt að nota litlu álformin en ég held það fari bara meiri tími og vinna í þetta þannig. Fyrst set ég væna doppu af súkkulaði í hvert mót og mjaka súkkulaðinu svo alveg upp á kantinn, passaðu samt að bæta við súkkulaði í botninn ef það vantar. Ég vil persónulega hafa botninn og toppinn með þykka skel. Síðan set ég mótið í frysti í smástund. Fyrir þá sem ætla að kaupa sér svona form þá mæli ég með því að þið kaupið tvö til skiptana. Á meðan eitt er í frystinum þá geturu undirbúið hitt og farið svoleiðis koll af kolli. þegar fyrri umferð af súkkulaði er hörðnuð þá setur þú fyllinguna þína í og lokar með bráðnu súkkulaði og setur aftur í frystinn. Eftir seinni umferðina þá þurfa molarnir að vera lengur í frystinum af því að botninn er frekar þykkur.
Fyllingar
Mjúk súkkulaðifylling getur verið ýmislegt en það sem mér finnst sniðugast er: uppáhalds súkkulaðikremið þitt (þarft samt að athuga hvort eitthvað af hráefnunum séu kælivara, ef svo þá þarf að geyma konfektið í ísskáp), heit súkkulaðiíssósa (mundu að kæla hana samt áður en þú setur hana í súkkulaðiskeljarnar og svo loks að bræða saman núggati og súkkulaði.
Uppáhaldsmolinn minn frá nóa síríus eru skeljarnar með karamellufyllingunni og ég bara varð að reyna að gera eins með núja mótinu mínu. Best er að sjálfsögðu að nota hreint nóa síríus rjómasúkkulaði og nota heita karamelluíssósu sem fyllingu, það er eins með hana og súkkulaðisósuna, kæla fyrst svo setja í mótið.
Ávaxtafyllingar eru svolítið tricky þar sem eina sem mér datt í hug var að setja sultu sem fyllingu og þá þarf að geyma konfektið í kæli en vel þess virði. Combóið sem mér finnst best að nota er hvítt súkkulaði og jarðaberjasulta.
Glassúrfyllingar eru skemmtilegar vegna þess að hægt er að gera svo margar tegundir: Kaffifylling er gerð með því að blanda saman kaffidufti, flórsykur og pínu vatni, pippmola er hægt að gera með flórsykri, pínu vatni og piparmyntudropum og appelsínufylling er hægt að gera með flórsykri og appelsínuþykkni. hægt er að halda lengi svona áfram en um að gera að nota hugmyndaflugið.
Nú eru flöskurnar farnar úr nóa síríuskassanum og sumir hafa orðið fúlir með það en hægt er að gera svipaðan mola með því að setja pínu sérrý, romm eða koníak í flórsykur og býr til glassúr til að setja sem fyllingu.
Fylltar döðlur
Þessa konfekt tegund er uppáhaldið hennar mömmu en hún er fyrir atvinnudundara að búa til og getur tekið svolítið langan tíma. Það sem þú þarft eru döðlur, súkkulaði og smurostur með appelsínulíkkjör. Þú byrjar á því að skera langsum hálfa leið í döðluna, svo hægt er að setja ostinn inní. Svo veltir þú molanum uppúr bráðnu súkkulaði og lætur harðna. Hægt er að nota aðrar fyllingar ef þið viljið.
Jólaepli
Þetta er konfekt sem ég hef ekki prófað sjálf áður heldur datt mér þetta bara í hug á meðan ég var að skrifa þannig að ég get ekki lofað neinu :/ En ég held það sé sniðugt að taka þurrkuð epli og velta þeim uppúr kanil og negulblöndu og svo hjúpa með súkkulaði. Ég er nokkuð viss um að þetta sé algjört sælgæti og í hollari kantinum fyrir þá sem eru að passa línurnar.
Gleðileg jól :D
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Jólasmákökur
28.11.2011 | 16:12
Í tilefni af því að fyrsti í aðventu var í gær og ég nennti ekki að læra meira, fór ég að glugga í allar smákökuuppskriftirnar mínar. Ég ákvað að setja uppáhaldssmákökurnar mínar hérna inn svo fleiri geti notið þess.
Sörur/franskar súkkulaðikökur
3 eggjahvítur
200gr fínt malaðar möndlur
3 1/4 dl sigtaður flórsykur
Krem:
3/4 dl sykur
3/4 dl vatn
3 eggjarauður
150 gr smjör
1 msk kakó
1 tsk kaffiduft
um það bil 250 gr hjúpsúkkulaði
Fyrst stífþeyttiru eggjahvíturnar. Hluta af sykrinum stráð saman smám saman út í og þeytt vel á milli. Afganginum af sykrinum, ca. helmingurinn, er blandað saman við möndlurnar og því svo hrært varlega saman við hvíturnar. Sett með teskeið á bökunarpappír og bakað við 180°C í um það bil 15 mín, eða lengri tíma með lægri hita. Kökurnar eru látnar kólna vel áður en kremið er sett á. Mér finnst gott að taka tvo daga í þetta, geri kökurnar einn daginn og geri svo kremið og set hjúpinn á daginn eftir.
Svo gerir þú kremið. Vatn og sykur er soðið saman í síróp, það tekur um það bil 8-10 mín. Þeytið eggjarauðurnar þar til þær eru kremgular og þykkar og hellið þá sírópinu í mjórri bunu út í og þeytið á meðan. Þetta er látið kólna. Síðan er mjúku smjöri hrært saman smátt og smátt, þeytt vel á milli. nú er kakói og kaffi hrært út í, gott að leysa kaffið upp í örlitlu vatni, ca. 1 msk.
Setjið nú þykkt lag af kremi neðan á kökurnar og dýfið kremhliðinni í bráðið súkkulaði. Hjúpsúkkulaði er brætt í vatnsbaði, örbygljuofni eða, uppáhaldið mitt, með hárblásara. Gott getur verið að frysta kökurnar áður en þú setur hjúpinn á og geyma þær í frysti og taka þær fram þegar gesti bera að garði af því að kremið hefur takmarkað geymsluþol.
Karamellukökur (ca. 40 kökur)
100 gr mjúkt smjör
3/4 dl sykur
1 msk vanilludropar eða vanillusykur
2 msk síróp
3 dl hveiti
2 tsk lyftiduft
Þetta setur þú allt saman í skal og hrærir varlega saman. Deigið hnoðaru svo í einn kubb og pakkar inní matarfilmu. Nú er komið að því að láta þetta standa í 2 tíma í ísskáp eða þar til deigið er búið að stífna aðeins. Þessu er svo rúllað upp í lengjur, skorið niður og þrýsta gaffli á bitana til að fá munstur. Kökurnar eru svo bakaðar við 175°C með blæstri í ca. 10 mín eða þar til þær verða gullnar.
Ég hef alltaf stoppað hérna en í ár er ég að hugsa um að splæsa í 70% súkkulaði og annaðhvort dreifa með lítilli bunu yfir allar kökurnar eða hjúpa helminginn af hverri smáköku.
Hnetusmjörskökur (ca.60 stk)
1 bolli hnetusmjör með bitum
1,5 bolli púðusykur
100 gr mjúkt smjörlíki
2 bollar haframjöl
3/4 bolli sykur
1/8 bolli vatn
1,5 bolli hveiti
100 gr suðusúkkulaði
1 egg
1 1/4 tsk vanilludropa
1,5 tsk lyftiduft
1/4 tsk salt
Þú þeytir saman hnetusmjör, púðursykur, smjörlíki og sykri saman þar til blandan er orðin kremkennd. Bætið eggi og vanilludropum við. Öllu hinu hráefninu er svo blandað saman í sérskál. nú blandaru báðum blöndum smátt og smátt saman.
Gott er að bæta við þurrkuðum ávöxtum saman við þurrefnin ef þú vilt. Gott er að notast við matskeið þegar þú setur deigið á smjörpappírinn, þetta er svo bakað við 165°C með blæstri í sirka 15 mín.
Ég veit að mælieiningarnar eru svolítið leiðinlegar en það er mjög sniðugt að fletta upp mælieiningum eins og "dl to cup conversion table" á google og þá finnuru sjálfvirka reiknivél sem reiknar þetta út fyrir þig.
Spesíur/bóndakökur (ca. 50 kökur)
1/2 bolli mjúkt smjörlíki
1/2 bolli sykur
1/2 bolli púðusykur
1 egg
1 1/2 hveiti
1/2 bolli kókosmjöl
1/2 tsk natron
1/4 tsk natron
200 gr súkkulaðidropar
Þetta er allt sett saman í skál, fyrir utan súkkulaðidropana, og hrært og hnoðað vel saman. Þessu er svo rúllað upp í eina lengju og skorið niður í litlar medalíur, einn súkkulaðidropi er settur á hverja köku og svo bakað við 175°C með blæstri í ca. 10 mín.
Þegar ég var að fletta í gegnum uppskriftirnar mínar þá rak ég augun í gamla uppskrift af eggjamjólk og hélt það væri gaman að hafa hana hérna í lokin.
Eggjamjólk
1 1/4 l. mjólk
2 msk hveiti
2 egg
2 msk sykur
vanilludropar
Þú tekur hluta af mjólkinni og hitar upp, heldur eftir um það bil 2 dl, þegar mjólkin er farin að sjóða þá blandaru saman 2 dl af mjólk og 2 msk hveiti vel og setur út í heita mjólkina og sýður smástund. Eggin og sykurinn er þeytt vel saman þar til kremgult, heitu mjólkinni er hellt í mjórri bunu út á eggin og þeytt vel á milli. Í lokin er vanilludropum bætt úti, smakkaðu þetta bara til þar til mjólkin er orðin eins og þú vilt hafa hana, og svo er þetta borið fram strax.
Svo set ég inn hugmyndir af jólakonfekti vonandi fljótlega, hafið það gott á aðventunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Partýbollur/hakkbuff (hveitilaust)
27.11.2011 | 18:49
Hakk er góður og hollur matur sem hægt er að matreiða á margan hátt ef þú hleypir bara ímyndunaraflinu lausu. Núna ætla ég að láta ykkur hafa hakkuppskrift sem er góð bæði í partýbollur eða hakkbuff. Þú þarft ekki að nota sama grænmeti og ég en uppistaðan er í raun hakk, laukur, krydd, egg og parmesanostur. Rest getur þú valið úr sjálf/ur en hafðu í huga að það þarf að skera þetta mjög smátt svo bollurnar haldist saman þegar þæt eru eldaðar. þetta er fyrir um það bil 40 bollur
Það sem þú þarft er:
um það bil 400 gr hakk (ég notaði eina rúllu af sparhakki)
hálfan lauk
1 egg
tvær góðar lúkur frostþurrkaður parmesanostur (kemur í staðin fyrir hveiti eða Ritzkex)
um það bil 18 ólífur
8 kögglar frosið spínat
2 molar af nautakjötkraft
slurk af pipar
slurk af Lamb Islandia
smá beikon
hvítlauksolía/olía og hvítlauk
Þú byrjar á því að skera laukinn, beikonið og ólífurnar mjög smátt og blanda saman við hakkið. Síðan blandaru egginu og kjötkraftinum saman í sérskál, þetta er til þess að krafturinn dreifist sem mest. síðan blandaru eggjablöndunni saman við. Ég afþýði spínatið í vatnsbaði og kreisti svo eins mikin vökva úr áður en þú blandar því saman ásamt kryddi. þetta er svo hnoðað vel saman þar til hakkdeigið heldur sér vel. Ef þú átt ekki hvítlauksolíu þá er gott að rífa hvítlauk út í hakkið líka.
Nú hnoðaru bollurnar, það er best að skola hendurnar uppúr köldu vatni áður en þú byrjar og hafðu hugfast að ýta öllu lofti úr bollunum svo þær haldi lögun sinni. raðaðu þeim svo á ofnplötu, sáldra pínu olíu/hvítlauksolíu á þær og bakaðu á 200° á blæstri í um það bil 15 mín. þegar ég gerði þetta fyrst var stærðarinnar pollur í kringum bollurnar en engar áhyggjur þetta er eðlilegt.
næst tekuru þær af plötunni og lætur kólna aðeins og eldhúsbréfi, þetta tekur mestu olíuna úr.
Þessar bollur er tilvalið að frysta ef þetta er of mikið og borða seinna. En það eru alla veganna fjórar aðferðir til þess að bera þetta fram. þú getur hitað þær upp í brúnni sósu og bera fram með spæleggi og kartöflum, hitað upp í súrsætri sósu og bera fram með hrísgrjónum, hita upp í pítsasósu og bera fram með spagettíi eða fyrir krakkana hita upp í örbylgju og bera fram með kartöflum/frönskum og tómatssósu.
verði ykkur að góðu