Orlyfiskur með chillimajónesi
29.3.2012 | 19:27
Yfirleitt tengir fólk Orlyfisk við djúpsteikingarpottinn sem kostar mikil þrif í lok máltíðar en ég hef fundið góða lausn á því að forðast þessi þrif.
Með því að hita slatta af olíu í djúpri pönnu, þarf ekki að hylja fiskinn, og dýfa fiskinum í þurrt hveiti eftir deigið þá er auðvelt að þrífa eftir þá eldamennsku.
Það sem þú þarft er:
fiskur skorin í passlega bita, helst góðan þrosk
um það bil 200 gr hveiti
1 egg
1 tsk lyftiduft
1 dós pilsner (helst Tuborg eða eitthvað álíka bragðsterkt)
smá saltklípu
krydd eftir smekk
slatti aukahveiti
Þú byrjar á því að blanda þurrefnunum vel saman. Kryddið sem ég nota er góður slatti kjöt og grillkrydd, Lamb islandia og svartur pipar og svo smáklípu af cayenne pipar og karrý. Síðan er egginu og slurk af pilsner sett útí þar til deigið fær svipaða áferð og vöffludeig, fyrir þá sem hafa aldrei gert vöfflur þá er áferðin frekar þykk. Best er að smakka deigið til ef þið eruð ekki viss með kryddið en deigið á að vera mjög sterkt vegna þess að bragðið minnkar þegar þú setur meira hveiti á blönduna fyrir steikingu.
Þegar olían er orðin vel heit þá dýfir þú fiskbitunum í Orlydeigið og svo veltir þú þeim varlega uppúr hveiti og leggur á pönnuna en hveitið kemur í veg fyrir að deigið renni á hliðarnar við steikingu. Þar sem þú þarft ekki að setja hrikalega mikið af olíu á pönnuna þarft þú að snúa fisknum. Best er að hreyfa sem minnst við fiskinum fyrst til að byrja með en eldunartími er misjafn eftir þykkt bitanna. Þegar þú ert búin að steikja fiskinn þá er hann lagður á dagblað eða eitthvað álíka á disk og olíunni leyft að renna af.
Fiskurinn er svo borin fram með salati og/eða grilluðum kartöflubátum eða sætum kartöflum. Það sem toppar Þetta algjörlega er chillimajónesið en það er auðvelt að búa það sjálf/ur til. Það eina sem þú þarft er fitulítið majónes og sæt chillisósa. Þetta tvennt blandar þú saman um það bil 50/50 í litla krukku og berð fram með fisknum. Ef þú ert með börn við matarborðið þá getur verið að þetta sé of sterkt fyrir þau en þá er hægt að gera kalda karrýsósu sem er líka góð með grilluðum kjúlla. Þá ertu með majónes/sýrðan rjóma og karrýduft, þessu er blandað vel saman og smakkað til en gallinn við þessa sósu er að hún þarf að fá að standa aðeins áður en hún er borin fram til þess að karrýið fái að leysast almennilega upp og sósan fær meira bragð.
Verði ykkur að góðu :D
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.