Fiskbaka með spínati og kartöflustöppu
15.7.2011 | 19:49
Ég var orðin leið á sama venjulega matnum þannig að ég fór að fletta upp í matreiðslubókum Jamie Oliver til að fá innblástur að nýjum hugmyndum af kvöldmat. Ég rakst á mjög svo enska uppskrift af fiskböku sem hljómaði skemmtilega en ég setti að sjálfsögðu mitt mark á þetta og breytti henni aðeins. Ég notaði venjulega ýsu í þetta en þegar ég var búin að smakka afraksturinn þá er ég alveg viss um að reyktur fiskur sé enn betri í þetta. Þetta er líka æðislegur réttur til þess að fela grænmeti í fyrir þá sem eru búnir að ákveða að grænmeti sé vont ;)
Það sem þú þarft er:
1 stórt ýsu/þorskflak eða reyktan fisk
1 laukur
3 gulrætur
1 Sæta kartöflu (má sleppa)
íslenskt smjör
3 kúfaðar msk rjómaost
1/2 dl mjólk
2-3 kartöflur
3-4 ræmur beikon
ferskt eða frosið spínat
2 hvítlauksgeira
salt
pipar
Lamb islandia krydd
Rifin ost
Það fyrsta sem ég geri er að skræla kartöflurnar og sjóða, gott er að skera þær í tvennt þá þarftu styttri suðutíma. Á meðan kartöflurnar eru að sjóða skerðu beikonið í litla bita og steikir þar til það er stökkt og leggur til hliðar. Næst smjörsteikir þú smáttskorin laukinn, gulræturnar, sætu kartöflurnar og hvítlaukinn í um það bil 5 mín undir lágum hita. Síðan setur þú rjómaostinn og mjólkina útá og bræðir saman og kryddar síðan með salti, pipar og Lamb islandia. Ég nota djúp eldfast mót svo að hægt er að stafla þessu almennilega. Fyrst setur þú ferska spínatið í botninn, mundu að meira er betra þar sem það rýrnar mjög mikið við eldun, og raðar fiskbitunum yfir. Næst kryddar þú fiskinn með salti og pipar og hellir sósunni yfir.
Nú snýrðu þér að kartöflustöppunni. Þú setur soðnar kartöflurnar saman við smjörklípu, mjókurdreitil og steikta beikoninu og kryddar svo með salti, pipar og pínu sykri. Þú smyrð kartöflustöppunni yfir fiskinn og stráir svo rifnum osti yfir þetta allt saman. Þetta er svo bakað í ofni í um það bil 25 mín.
Það sem þú þarft að hafa í huga þegar þú gerir þennan rétt:
Ef þú ákveður að nota reyktan fisk farðu þá varlega í saltið og mundu að roðfletta fiskinn áður en þú setur hann í fatið.
Ef þú notar frosið spínat þá þarftu að leggja það í sigti með klút undir og lætur renna af því á meðan þú undirbýrð réttinn. Þegar kemur að því að setja spínatið í fatið þá notar þú klútinn eins og poka og vindur spínatið vel vegna þess að það kemur nægur vökvi af fiskinum.
Verði ykkur að góðu :D
Flokkur: Matur og drykkur | Breytt 31.8.2011 kl. 21:47 | Facebook
Athugasemdir
omnom! ég bý oft til svona heima.. lærði þetta þegar ég bjó í bretlandi með ofur-breskum manni! ;) Fisherman's Pie er súpergóð! - og lítur svona líka geggjað vel út hjá þér! :D
ps. - kartöflustappa með bacon er best!
Svanhildur (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 13:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.