Bloggfærslur mánaðarins, desember 2011

Jólakonfekt

Ég er ekki mikið fyrir smákökur en mér finnst alveg agalega gaman að baka þær. Síðustu ár hef ég því farið hægt og hægt yfir í jólakonfektgerð frekar en smákökur á jólunum þar sem ég hef alltaf setið uppi með slatta af afgangssmákökur. Mér finnst jólakonfektgerð svo skemmtileg vegna þess að ég get alveg gleymt stund og stað við þetta svo er þetta sniðug og persónuleg jólagjöf handa þeim sem eiga allt. Það er ekkert mál að gera 4-5 tegundir af konfekti, pakka því inn í Sellófan og setja fallegan borða og orðsendingu með. En núna ætla ég að gefa ykkur smá hugmyndir af konfekti sem er auðvelt að gera, alveg frá einföldustu tegundinni yfir í eitthvað aðeins flóknara.

Fyrst ætla ég að gefa ykkur smá ráð við að bræða súkkulaði. Það eru 3 aðferðir til þess að bræða súkkulaði, ef þið vitið um fleiri þá endilega setjið í athugasemdir. En sú fyrsta er að bræða í örbylgjuofn, þetta krefst þess að þú hitar upp smátt og smátt en það er hætta á að það brenni við.

Önnur aðferðin er að bræða yfir vatnsbaði, þú setur vatn í pott og súkkulaði í aðeins minni skál er látin fljóta yfir. Þetta getur verið tímafrekt og það er hætta á að þú brennir þig á gufunum meðfram efri skálinni.

Þriðja aðferðin sem ég held mest uppá sá ég í þætti Jóa Fel í fyrra, og það er að brytja súkkulaðið niður í skál og nota hárblásara til að bræða súkkulaðið. með þessari aðferð er engin hætta á að brenna súkkulaðið né þig. Ef þú notar þessa aðferð þá er í lagi þó að súkkulaðibitarnir séu ekki alveg bráðnir, bara hræra aðeins í súkkulaðinu og hitin af hinu bærðir restina.

Appelsínuklattar

þetta er mjög auðvelt og allir geta gert þetta, ég sá Jóa Fel gera þetta í þættinum sínum í fyrra og varð ástffangin af þessu konfekti. Það sem þú þarft er appelsínusúkkulaði og þurrkaðar apríkósur. Þú byrjar á því að bræða súkkulaðið, hella því yfir smjörpappír og dreifa úr því. Gott er að miða við stærð súkkulaðsins áður en þú bræðir það niður. s.s. ef þú notar eina plötu af appelsínusúkkulaði þá breiðiru úr bráðnu súkkulaðinu 2x stærra en það.

Næst saxaru niður apríkósurnar og setur yfir súkkulaðið áður en það harðnar. þetta er svo sett inn í ísskáp í um það bil 10 mín. þegar platan er hörðnuð þá geturu annað hvort brotið þetta niður í bita eða skorið með hníf.

Núggatmolar með möndlum

Þessa tegund gerði ég í fyrsta skiptið í ár og hún heppnaðist rosalega vel. Það eina sem þú þarft er núggat stykki, hakkaðar möndlur og súkkulaði. Þú byrjar á því að skera niður núggatið í litla bita, ekki hafa þá of stór þá er núggatið of ríkjandi. Síðan hjúpari núggatbitana í súkkulaði og veltir þeim strax upp úr möndlunum. Bitinn er settur á smjörpappír þar til hann harðnar. Þeir sem eru aðdáendur marsipans geta flatt út marsipan með flórsykri og vafið utan um núggatmolan áður en þú hjúpar með súkkulaði.

Banana/sítrónulurkar

Ég gerði þetta konfekt fyrst með mömmu minni þegar ég var lítil og þá var hægt að fá bananadropa en þegar ég ákvað að gera þetta í fyrra þá fann ég hvergi þessa dropa, ef einhver viet hvar hægt er að fá þetta eru allar ábendingar vel þegnar. Þó svo að ég hafi ekki fundið þessa dropa þá lét ég ekki deigann síga og notaði bara sítrónudropa í staðinn. Það sem þú þarft er ein meðalstór soðin kartafla, sigtaðan flórsykur (ég gef ekki upp magn vegna þess að það er misjafnt eftir stærð kartöflunnar), súkkulaði (mér finnst dökkt best) og sítrónudropar. Þú blandar saman stappaðri kartöflunni og flórsykurnum og setur smáslurk af dropunum með. í byrjun veður þetta mjög fljótandi en ekki láta það hræða þig á endanum verður þetta að deigi sem hægt er að hnoða, flórsykur notað sem hveiti. Deigið er mótað í litla bita sem er svo velt uppúr súkkulaði. En eitt ráð áður en þú byrjar, ekki lláta blekkjast af stærð kartöflunnar, um það bil 70% af deiginu er flórsykur þannig að ekki hafa of stóra kartöflu.

Fylltir súkkulaðimolar

Fyrst þegar ég prófaði að gera þessa mola kom það mér á óvart hversu auðvelt það var að gera þá. Ég fékk fyrst þessa hugmynd þegar ég rambaði á konfektmót úr plasti í húsasmiðjunni í fyrra. Hægt er að leika sér að þessum molum á margan hátt en ég ætla að byrja á því að segja ykkur hvernig ég set þetta í mótin og svo ætla ég að gera lista yfir hugmyndir að fyllingu.

Fyrst gerir þú fyllingu, ef hún er búin til, stundum er þetta bara keypt. Síðan bræðir þú niður slatta af súkkulaði. Ef þú átt ekki mót eða finnur það ekki í búðum þá getur verið að það sé hægt að nota litlu álformin en ég held það fari bara meiri tími og vinna í þetta þannig. Fyrst set ég væna doppu af súkkulaði í hvert mót og mjaka súkkulaðinu svo alveg upp á kantinn, passaðu samt að bæta við súkkulaði í botninn ef það vantar. Ég vil persónulega hafa botninn og toppinn með þykka skel. Síðan set ég mótið í frysti í smástund. Fyrir þá sem ætla að kaupa sér svona form þá mæli ég með því að þið kaupið tvö til skiptana. Á meðan eitt er í frystinum þá geturu undirbúið hitt og farið svoleiðis koll af kolli. þegar fyrri umferð af súkkulaði er hörðnuð þá setur þú fyllinguna þína í og lokar með bráðnu súkkulaði og setur aftur í frystinn. Eftir seinni umferðina þá þurfa molarnir að vera lengur í frystinum af því að botninn er frekar þykkur.

Fyllingar

Mjúk súkkulaðifylling getur verið ýmislegt en það sem mér finnst sniðugast er: uppáhalds súkkulaðikremið þitt (þarft samt að athuga hvort eitthvað af hráefnunum séu kælivara, ef svo þá þarf að geyma konfektið í ísskáp), heit súkkulaðiíssósa (mundu að kæla hana samt áður en þú setur hana í súkkulaðiskeljarnar og svo loks að bræða saman núggati og súkkulaði.

Uppáhaldsmolinn minn frá nóa síríus eru skeljarnar með karamellufyllingunni og ég bara varð að reyna að gera eins með núja mótinu mínu. Best er að sjálfsögðu að nota hreint nóa síríus rjómasúkkulaði og nota heita karamelluíssósu sem fyllingu, það er eins með hana og súkkulaðisósuna, kæla fyrst svo setja í mótið.

Ávaxtafyllingar eru svolítið tricky þar sem eina sem mér datt í hug var að setja sultu sem fyllingu og þá þarf að geyma konfektið í kæli en vel þess virði. Combóið sem mér finnst best að nota er hvítt súkkulaði og jarðaberjasulta.

Glassúrfyllingar eru skemmtilegar vegna þess að hægt er að gera svo margar tegundir: Kaffifylling er gerð með því að blanda saman kaffidufti, flórsykur og pínu vatni, pippmola er hægt að gera með flórsykri, pínu vatni og piparmyntudropum og appelsínufylling er hægt að gera með flórsykri og appelsínuþykkni. hægt er að halda lengi svona áfram en um að gera að nota hugmyndaflugið.

Nú eru flöskurnar farnar úr nóa síríuskassanum og sumir hafa orðið fúlir með það en hægt er að gera svipaðan mola með því að setja pínu sérrý, romm eða koníak í flórsykur og býr til glassúr til að setja sem fyllingu.  

Fylltar döðlur

Þessa konfekt tegund er uppáhaldið hennar mömmu en hún er fyrir atvinnudundara að búa til og getur tekið svolítið langan tíma. Það sem þú þarft eru döðlur, súkkulaði og smurostur með appelsínulíkkjör. Þú byrjar á því að skera langsum hálfa leið í döðluna, svo hægt er að setja ostinn inní. Svo veltir þú molanum uppúr bráðnu súkkulaði og lætur harðna. Hægt er að nota aðrar fyllingar ef þið viljið.

Jólaepli

Þetta er konfekt sem ég hef ekki prófað sjálf áður heldur datt mér þetta bara í hug á meðan ég var að skrifa þannig að ég get ekki lofað neinu :/ En ég held það sé sniðugt að taka þurrkuð epli og velta þeim uppúr kanil og negulblöndu og svo hjúpa með súkkulaði. Ég er nokkuð viss um að þetta sé algjört sælgæti og í hollari kantinum fyrir þá sem eru að passa línurnar.

Gleðileg jól :D


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband