"Red Velvet" súkkulaðikaka
14.3.2012 | 14:09
Nú er að verða mánuður síðan ég setti eitthvað hérna inn síðast en ég fer nú að bæta úr því. Ég þurfti bara að prófa mig áfram í einhverju nýju og fá skemmtilegar hugmyndir áður en ég setti eitthvað meira hérna inn.
En núna ætla ég að setja inn uppskrift af "Red velvet" súkkulaðiköku, en ég fann þessa uppskrift á síðunni joyofbaking.com og setti hana inn á íslensku. Það er líka myndband á síðunni ef þið viljið sjá nákvæmlega hvernig þetta er gert.
Það sem þú þarft í botnana er:
250 gr sigtað hveiti
1/2 tsk salt
2 msk kakóduft
113 gr mjúkt alvöru smjör
300 gr sykur
2 stór egg
1 tsk vanilludropa
240 ml/1 bolla "buttermilk" (ég segi hvernig á að búa hana til neðar)
2 msk rauður matarlitur
1 tsk edik
1 tsk lyftiduft
Það hefur kannski hrætt ykkur að það er svokölluð buttermilk í uppskriftinni en það er ekkert mál að búa hana til og er hún ekkert ósvipuð venjulegri mjólk. Þú setur bara 1 msk sítrónusafa eða edik í mælimál og fyllir svo uppí 1 amerískan bolla af mjólk. Þetta lætur þú standa í um það bil 5 mínútur þannig að mjólkin yrjist aðeins en þessi blanda gerir kökuna mjúka.
þú byrjar á því að hita ofnin á 180° með blæstri þannig að hann sé alveg pottþétt vel heitur þegar deigið er tilbúið. síðan smyrð þú tvö hringlaga eða ferköntuð form með smjörlíki og setur sniðin smjörpappír í botninn. talið er upp hringlaga form sem eru 23 cm (9") í uppskriftinni en ég notaði ferköntuð álform sem eru merkt 8" (inches).
Fyrst setur þú hveitið, saltið og kakóið í skál og blandar vel saman. í aðra skál setur þú smjörið og mýkir það upp með handþeytara eða í hrærivél, síðan bætir þú sykrinum við og hrærir þar til þetta er orðið mjúkt og loftkennt. þegar þetta er tilbúið setur þú eggin í eitt í einu og síðan vanilludropunum og blandar vel saman.
Nú ertu komin með tvær blöndur í sitthvora skálina og "buttermilk" blandan ætti að vera tilbúin. Við hana bætir þú rauða matarlitnum og blandar varlega saman. farðu samt varlega með litinn vegna þess að það er erfitt að þrífa hann af.
nú er komið að því að setja allar blöndurnar varlega saman. fyrst setur þú hveitiblönduna í smjörblönduna, lítið í einu og mjólkurblönduna inn á milli. 3 sinnum hveitir og 2 sinnum mjólk. þetta er hrært smátt og smátt saman þar til þetta er vel blandað saman.
Nú er komið að því sem gerir þessa köku svo sérstaka en það er blandan af ediki og lyftidufti. Áður en þú býrð þig undir að setja þessa blöndu saman þá þarftu að vera tilbúin með sleif eða sleikju í skálinni og þarft að vera alveg eldsnögg/ur vegna þess að þegar þú setur þessi tvö efni saman myndast froða sem gerir botninn léttan. Eldsnöggt setur þú edikið útí lyftiduftið og svo beint útí deigið og blandar vel saman. síðan skiptir þú deiginu í tvennt og setur í formin, breiðir úr deiginu og setur strax í ofninn. þetta ferli þarf að gerast mjög snöggt. botnarnir eru svo bakaðir í 25-30 mín eða þar til þú getur stungið gaffli eða tannstöngli í miðjuna og hann komi hreinn upp aftur.
Síðan kælir þú botnana vel á meðan þú gerir kremið.
Það sem þú þarft í kremið er:
227 gr hreinan rjómaost
227 gr Mascarpone (mátt nota meira af venjulega rjómaostinum í staðin fyrir Mascarpone ef þú vilt)
1 tsk vanilludropa
115 gr flórsykur
360 ml rjóma
Rjómaostarnir þurfa að vera við herbergishita áður en þú byrjar. Fyrst setur þú ostana saman í skál og hrærir þá vel saman þar til þeir eru mjúkir. Síðan setur þú flórsykurinn og dropana saman við og hrærir þar til þetta er orðið mjúkt og loftkennt. Og síðast setur þú rjóman smátt og smátt saman við þessa blöndu síðan þeytir þú kremið þar til það er orðið nægilega stíft til að setja á kökuna.
Nú ættu botnarnir að vera orðnir kaldir, þú getur flýtt fyrir þér með því að setja þá í ísskápinn. En þar sem að þetta er fjögura hæða kaka þá þarf maður að vera flinkur við að skera botna. Ég setti botnanna í ísskápinn í sólahring þegar ég gerði þessa köku fyrst og áttaði mig ekki á því að botnarnir hálfféllu við það en risu svo aftur upp þegar ég setti kremið á. En gott húsráð þegar maður er að skera botna, sá það á gult.is, er að skera meðfram með hnífi, bara 2-3 cm inn. Og svo setja tvinna í raufina og draga saman.
síðan setur þú krem og botn til skiptis þar til kakan er fullhlaðin og svo setur þú krem efst og á hliðarnar. í uppskriftinni er tekið fram að það sé gott að setja kókos á kökuna sem skraut og hann myndi lítið sjást þá er annað hvort hægt að setja pínu matarlit í kremið eða lita kókosinn rauðan.
Ef þú vilt lita kókos þá er það lítið mál, þú setur bara smá vatn í skál með matarlit og setur svo slatta af kókos og veltir honum vel uppúr þessu. síðan dreifir þú þessu út á matardisk og setur í örbylgjuofninn á sirka 1 mín, stoppar, veltir honum aðeins um og svo aftur á 1 mín. Þetta kælir þú niður í ísskápnum eða frysti.
Þeir sem hafa áhuga á að sjá myndbandið sjálft geta séð það hérna:
http://www.joyofbaking.com/RedVelvetCake.html
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.