Heilsteiktur kjúklingur fyrir klaufana
2.2.2012 | 19:01
Loksins komin aftur úr mjög löngu jólafríi. Ég vil byrja nýja árið á súpereinföldum og bragðgóðum kjúklingi sem engin getur klúðrað. Hann er hins vegar ekki neitt hrikalega heilsusamlegur :)
En ég sá þessa aðferð í þætti Jamie Oliver og féll fyrir þessu.
Það sem þú þarft er:
Heill kjúklingur
Fuullt af mjúku kryddsmjöri/hvítlaukssmjöri
kjúklingakrydd að eigin vali
1-2 sítrónur
1-2 lauka
1-2 rósmaríngreinar
Eins og ég sagði að ofan er þetta súpereinfalt og fljótlegt að gera. Þú byrjar á því að snyrta í kringum gatið þar sem innyflin eru tekin úr, þetta geriru til þess að skilja húðina frá vöðvanum án þess að taka húðina af. Þegar þú ert búin að snyrta í kringum gatið, s.s. taka mestu fituna frá þá ýtir þú varlega á milli vöðva og húðar þannig að það myndist poki yfir bringuna, lærin og leggina. Nú setur þú eins mikið kryddsmjör og þú getur inní þessa poka og dreifa því vel. Þegar þú ert búin að setja smjörið inní er gott að nota afgangssmjörið á höndunum á þér utan á kjúklinginn. Sumir vilja gera sitt eigin kryddsmjör sem er ekkert mál, lint alvöru smjör í skál ásamt alls konar kryddi/hvítlauk en þú getur líka keypt það tilbúið. Ef ég mundi miða við keypt smjör sem er svona ávallt þá væri örugglega nóg að kaupa tvær rúllur. Ef þú vilt búa til smjörið sjálf þá er alltaf hægt að setja það í matarfilmu og setja í frystinn fram að sumri með grillmatnum.
Nú er kjúllinn fullur af smjör og þá er komið að því að fylla kviðarholið. Skerðu sítrónurnar og laukinn í tvennt, laukurinn fer inn án hýðis, og merðu rósmaríngreinarnar aðeins, Hægt er að beygja greinarnar aðeins eða berja með kjöthamri. þessu er öllu troðið inn í kjúklinginn, það er allt í lagi þó að það stingist aðeins út en magnið af sítrónu, lauk og rósmaríngreinum fer eftir stærð kjúklingsins.
Settu nú kjúklinginn á ofnfat og dreifðu kjúklingakryddi yfir, mér finnst kjúklingasteikarkryddið sem ég fæ í Bónus alveg æði en svo er líka gott að setja kjöt og grillkrydd ásamt hot sauce á kjúllann. Kryddið sem þú setur á kjúllann fer eftir því hvort þú vilt hafa hann þungan eða ferskan. hægt er að fletta upp allskonar kryddblöndum á google og fá skemmtilegar og öðruvísi hugmyndir. Mundu að nudda kryddinu vel í húðina ásamt afgangssmjörinu sem ég minntist á ofar.
Eldunartíminn fer að sjálfsögðu eftir stærð kjúklingsins en ég miða við tæplega kíló og 60 mín á 180° á blæstri. Þeir sem vilja hafa húðina krusty þá mæli ég með að þið stillið á 200° grill síðasta korterið.
Ef þið viljið bera kjúklinginn fram með rótargrænmeti eins og sætum og venjulegum kartöflum og pínu rauðlauk er gott að skella því í kringum kjúklinginn á fatinu um það bil hálftíma áður en hann á að vera tilbúin en það fer að sjálfsögðu eftir stærð grænmetisins.
Þetta er svo allt saman borið fram með góðri heitri sósu. Ég vil annað hvort fá góða sveppasósu eða rjómaBBQ sósu.
Fyrir þá sem vilja BBQ sósuna þá er hún mjög einföld líka.
Þú þarft:
BBQ orginal sósu
matarrjóma
Mangó chutney
Þetta er allt saman sett í pott og hrært saman, magnið fer eftir þínum bragðlaukum. ef þú vilt mikið rjómabragð þá er rjóminn í meirihluta ef þú ert meira fyrir BBQ þá er það í meirihluta. Ég vil setja pínu sósujafnara út í þetta vegna þess að þetta er frekar þunn sósa og ég vil hafa sósuna þannig að ég geti smurt henni á bitann.
Verði ykkur að góðu :D
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.